Skoðun

Þrjátíu gráir skuggar...

Rannveig Borg Sigurðardóttir skrifar

Umræða um afglæpavæðingu neysluskammta og breytingar á fíkniefnalögum er jákvæð. Eins og oft þá hafa allir nokkuð til síns máls. Enda er málefnið ekki svart og hvítt.

Það getur þó verið varhugavert að bera Ísland í blindni saman við aðrar þjóðir. Menningin getur verið frábrugðin allt eins og „neyslusaga“, hefðir og meðferðarúrræði. Alþjóðleg viðhorfsbreyting skiptir máli en við megum ekki missa sjónar á mikilvægi þess að lög um ávana- og fíkniefni séu sniðin að íslenskum aðstæðum – allt eins og áfengislögin.

Þá er miður að heildstæð stefna liggi ekki fyrir í málaflokknum þegar þetta mikilvægt frumvarp er lagt fram. Í raun er það með ólíkindum að stefnan sé ekki mótuð áður en frumvarpið er lagt fram. Það kemur fram í frumvarpinu að:„Vonir standa til þess að hægt verði að leggja fram heildstæða stefnu í málaflokknum á komandi árum með aukinni áherslu á forvarnir, meðferðarúrræði og skaðaminnkandi verkefni[...]“ (1)

Af hverju liggur okkur á áður en heildstæð stefna í málaflokknum liggur fyrir?

Mikið hefur verið fjallað um portúgölsku leiðina, árangurinn sem hefur náðst í Portúgal með afglæpavæðingu fíkniefna árið 2001. Það er þó erfitt að bera löndin saman. Á þessum tíma var gríðarlegt eiturlyfjavandamál í Portúgal (4). Íslenska frumvarpið er einskorðað við afglæpavæðingu neysluskammta. Áherslan í portúgölsku löggjöfinni var að miklu leyti á skaðaminnkun og meðferðarúrræði. (2) „Sett voru á laggirnar fleiri úrræði og meðferðarstofnanir til að hjálpa notendum háðum fíkniefnum. Jafnframt var komið á fót sérstökum dómstól sem ætlað er að styðja við bakið á þeim notendum vímuefna sem staðnir eru að verki við notkun fíkniefna með því að fræða þá um skaðleg áhrif vímuefna, hvetja þá til að hætta notkun á slíkum efnum og leita sér hjálpar.“(1) Það hefur orðið mikil fjölgun einstaklinga sem leita sér hjálpar í Portúgal og er það talin ein aðal ástæðan fyrir árangri Portúgala í þessum efnum. (3)

Af ofangreindu má sjá að það er ekki hægt að vísa í rannsóknir frá Portúgal. Staðreyndir eru einfaldlega ekki þær sömu.

Að endingu má nefna í tengslum við breytingar á fíkniefnalöggjöf hvort lögin þyrftu ekki að ná yfir „New Psychoactive Substance (NPS)“ eins og til dæmis Spice. (5) Svissneska leiðin í því samhengi er athyglisverð. (6)

Höfundur er starfandi lögfræðingur í Sviss, og nemi í alþjóðlegri fíknifræði við King´s College.

Heimildir:

1. https://www.althingi.is/altext/151/s/1193.html

2. https://www.mic.com/articles/110344/14-years-after-portugal-decriminalized-all-drugs-here-s-what-s-happening

3. https://drugpolicy.org/sites/default/files/DPA_Fact_Sheet_Portugal_Decriminalization_Feb2015.pdf

4. https://www.theguardian.com/news/2017/dec/05/portugals-radical-drugs-policy-is-working-why-hasnt-the-world-copied-it

5. https://www.unodc.org/documents/scientific/NPS_Report.pdf

6. https://www.swissmedic.ch/swissmedic/en/home/news/mitteilungen/narcotics-list-extended-2019.html




Skoðun

Sjá meira


×