Erlent

Netanja­hú missir um­boð til stjórnar­myndunar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Yair Lapid, leiðtogi miðjuflokksins Yesh Atid, hefur fengið umboð til að mynda ríkisstjórn í Ísrael.
Yair Lapid, leiðtogi miðjuflokksins Yesh Atid, hefur fengið umboð til að mynda ríkisstjórn í Ísrael. EPA-EFE/ABIR SULTAN

Yair Lapid, leiðtogi ísraelska miðjuflokksins Yesh Atid, hefur fengið umboð til að mynda ríkisstjórn. Forseti Ísraels veitti honum umboðið í dag eftir að Benjamín Netanjahú forsætisráðherra tókst ekki að mynda ríkisstjórn fjórum vikum eftir þingkosningar í landinu.

Yesh Atid flokkurinn hlaut annað stærsta fylgi meðal kjósenda, á eftir Likud flokki Netanjahús, í þingkosningum sem fóru fram í lok mars. Talið er líklegt að stjórnarmyndunarviðræður Lapids verði nokkuð erfiðar en þingflokkarnir virðast lítið tilbúnir til að miðla málum og finna milliveg.

Ljóst er að Lapid þurfi að tryggja minnst þriggja flokka stjórnarsamstarf til þess að ná meirihluta á þinginu, þar sem 120 þjóðkjörnir fulltrúar sitja. Takist Lapid ekki að mynda ríkisstjórn mun að öllum líkindum þurfa að boða til annarra þingkosninga, þeirra fimmtu á tveimur árum.

Reuven Rivlin, forseti Ísraels, sagði í ávarpi í dag að hann hafi gefið Lapid 28 daga frest til að mynda ríkisstjórn. 56 þingmenn lýstu yfir stuðningi við það að Lapid fengi stjórnarmyndunarumboð í dag.

„Miðað við fjölda stuðningsyfirlýsinganna er ljóst að Yair Lapid getur myndað ríkisstjórn sem þingið styður, þrátt fyrir alla erfiðleikana,“ sagði Rivlin í dag.


Tengdar fréttir

Patt­staða í stjórnar­myndunar­við­ræðum Netanja­hús

Benjamin Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefur ekki tekist að mynda ríkisstjórn en hann hafði frest þar til á miðnætti í gærkvöldi. Þetta gæti þýtt að Likud-flokkur forsætisráðherrans verði í stjórnarandstöðu í fyrsta sinn í tólf ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×