Körfubolti

NBA dagsins: Reykurinn af réttunum, spennusigur Boston og Denver á flugi

Sindri Sverrisson skrifar
Chris Paul átti ríkan þátt í sigri Phoenix Suns í nótt.
Chris Paul átti ríkan þátt í sigri Phoenix Suns í nótt. Getty/Christian Petersen

Tvö bestu lið vetrarins í NBA-deildinni í körfubolta buðu upp á dýrindis forsmekk að því sem koma skal í úrslitakeppninni, þegar þau áttust við í nótt. Boston Celtics unnu New York Knicks í spennuleik og Nikola Jokic leiddi Denver Nuggets að sjöunda sigrinum í röð.

Í NBA dagsins má sjá svipmyndir úr stórleik Utah Jazz og Phoenix Suns, sem og úr sigri Boston gegn New York og Denver gegn San Antonio Spurs.

Klippa: NBA dagsins 8. apríl

Hinn 35 ára gamli Chris Paul kom til Phoenix í nóvember frá Oklahoma City Thunder og hefur reynst liðinu afar dýrmætur. Þannig var það í sigrinum á Utah þar sem hann skoraði 29 stig, meðal annars úr þriggja stiga skoti þegar mínúta var eftir af framlengingu og tveimur vítaskotum til að innsigla sigurinn.

Utah er enn efst í vesturdeild með 38 sigra og 13 töp en Phoenix er með 36 sigra og 14 töp. Vel gæti farið svo að liðin leiki um vesturdeildartitilinn í úrslitakeppninni í sumar.

Boston og New York berjast um að komast í hóp sex efstu liða austurdeildar, og tryggja sér þar með sæti í úrslitakeppninni. Liðin í 7.-10. sæti þurfa að fara í sérstakt umspil um að komast í úrslitakeppnina, og er Boston nú í 7. sæti og New York í 8. sæti en mjög stutt er í Miami Heat, Atlanta Hawks og Charlotte Hornets þar fyrir ofan.

Boston 101-99 sigur í gærkvöld þar sem Jaylen Brown skoraði 32 stig og tók 10 fráköst. Mikið gekk á í lokin eins og sjá má í myndskeiðinu hér að ofan.

Nikola Jokic skoraði 25 stig, gaf tíu stoðsendingar og tók níu fráköst í 106-96 sigri Denver á San Antonio. Hann vantaði því aðeins eitt frákast til að fullkomna þrettándu þrennuna sína á tímabilinu. Denver hefur nú unnið sjö leiki í röð og er fyrir ofan meistara LA Lakers, í 4. sæti vesturdeildarinnar. San Antonio er í 9. sæti.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×