Hertar sóttvarnaaðgerðir tóku gildi á fimmtudaginn í síðustu viku. Þá var meðal annars grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum gert að loka en ólíkt öðrum aðgerðum sem gripið var til gildir reglugerðin um skólastarf aðeins til og með 31. mars.
Síðan tekur við páskafrí í skólum en aðrar sóttvarnaaðgerðir gilda til og með 15. apríl.
Þórólfur er nú að vinna að minnisblaði í samvinnu með heilbrigðisráðuneytið og menntamálaráðuneytið varðandi það hvað tekur við í skólunum eftir páskafrí.
„Og ég held að við þurfum endilega að koma þessu af stað og vonumst til að faraldurinn haldist bara niðri og við verðum á góðum stað þannig að við getum bara haldið áfram að aflétta tiltölulega hratt, þar á meðal í skólunum. Við munum bara nýta okkur þá reynslu sem við fengum sérstaklega í þriðju bylgjunni og afléttingar sem við gerðum þá í skólunum, það er bara í smíðum. Reglugerðin um skólana gildir núna til 1. apríl en það eru náttúrulega allir í páskafríi þannig að þetta myndi þá koma strax til framkvæmda eftir páskana,“ sagði Þórólfur í Morgunútvarpinu. Hlusta má á viðtalið í heild á vef RÚV.