Vísindamenn voru einnig sammála um að eftir að gjósa tók í Geldingadal hafi litlar breytingar orðið nema á landslaginu næst gígunum. Þetta segir Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Mælingar hafa þá sýnt að flúor hefur mælst í regnvatni í pollum sem eru nálægt eldstöðvunum en það getur reynst hættulegt dýrum. Matvælastofnun er með málið á sinni könnu og von er á leiðbeiningum frá stofnuninni þar að lútandi.
Elísabet segir að sviðsmyndirnar séu í öllum meginatriðum þær sömu og áður. Vísindamenn vilja ekki útiloka möguleika á stærðarinnar skjálfta í Brennisteinsfjöllum.
Yfir þrjú hundruð skjálftar hafa orðið í dag – allir minniháttar. Virknin hefur aðallega verið við Reykjanestá, Svartsengi og Trölladyngju.