Gekk slökkviliði nokkuð greiðlega að slökkva eldinn og tókst naumlega að koma í veg fyrir að eldur festi sig í gámum á svæðinu. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins grunar að um íkveikju hafi verið að ræða.

„Ég held að það hafi ekki kviknað í af sjálfu sér,“ segir Stefán Ingvarsson í samtali við Vísi en Egersund Island framleiðir veiðafæri og þjónustar fiskeldisfyrirtæki.
„Það er erfitt að slökkva eld þegar hann kviknar í svona neti en þeir náðu þessu. Eldurinn var farinn að breiðast út í gáma sem voru hérna við þvottastöðina hjá okkur svo það var nú svona á síðustu stundu sem það bjargaðist. Það varð ekki mikið tjón þannig séð en þetta hefði geta farið mikið mikið verr. Við erum með gott slökkvilið í Fjarðabyggð.“
Frágangur stóð enn yfir á tíunda tímanum í kvöld og vann lögregla og slökkvilið að því að tryggja vettvanginn. Mikil hlýindi voru á Austfjörðum í dag og mældist yfir nítján siga hiti á Eskifirði. Stefán segir að vor hafi verið í loftinu og því óvenjumikið af eldsmat á svæðinu.
„Við erum með mikið af neti hérna á planinu, það var gott veður í dag og það var verið að laga til og gera fínt í góða veðrinu en þetta bjargaðist sem betur fer.“