Skoðun

Tryggingar gegn náttúru­ham­förum

Hulda Ragnheiður Árnadóttir skrifar

Náttúruöflin hafa svo sannarlega minnt á sig að undanförnum misserum. Nýliðið ár hófst með snjóflóðum á Flateyri og lauk með aurskriðum á Seyðisfirði. Undanfarnar vikur hafa einkennst af stöðugum jarðskjálftum á Reykjanesskaga sem búa okkur undir frekari jarðhræringar og jafnvel eldgos. Þegar náttúran minnir á sig berst iðulega fjöldi fyrirspurna um vátryggingarrétt fólks. Reynslan hefur sýnt að margir vita ekki á hvaða forsendum vátryggingaverndin byggir og hvert iðgjöld vegna hennar greiðast.

NTÍ er opinbert óhagnaðardrifið vátryggingarfélag

Náttúrurhamfaratrygging Íslands (NTÍ) er opinber stofnun sem bætir tjón vegna eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða. Tjón af þessu tagi eru almennt undanskilin bótaskyldu hjá almennu vátryggingarfélögunum. NTÍ byggir á grunni Viðlagatryggingar Íslands sem sett var á fót í kjölfar eldgossins í Vestmannaeyjum 1973 og snjóflóðs í Neskaupsstað 1974. NTÍ starfar eftir lögum frá Alþingi og er óhagnaðardrifið opinbert tryggingarfélag sem hefur þann eina tilgang að bæta verulegt tjón vegna náttúruhamfara.

Allar húseignir vátryggðar gegn náttúruhamförum

Tekjur NTÍ eru í formi iðgjalda sem innheimt eru af almennu vátryggingarfélögunum og skilað til NTÍ. Þannig eru allar húseignir vátryggðar hjá NTÍ, samhliða skyldutryggingu húseigna, sem flestir þekkja sem brunatryggingu. Eigin áhætta í tjónum á húseignum er 400.000 kr. Eigandi ber sjálfur ábyrgð á því að brunabótamat húseigna sé uppfært í samræmi við endurbætur. Óskum um endurmat skal koma á framfæri við Þjóðskrá, sem annast útreikning á brunabótamati.

Innbú vátryggt gegnum innbús- og heimilistryggingu

Til þess að vátryggja innbú gegn náttúruhamförum þarf eigandi að hafa gilda innbús- eða heimilistryggingu hjá einhverju af almennu tryggingarfélögum. Ólíkt brunatryggingum húseigna, eru slíkar tryggingar eru valkvæðar og því þarf fólk að hafa frumkvæði að því að kaupa slíkar tryggingar. Iðgjöld til NTÍ eru innheimt samhliða iðgjöldum vegna innbús- eða heimilistryggingar. Eigin áhætta í tjóni sem verður á innbúi er 200.000 kr. Til þess að NTÍ geti bætt tjón í kjölfar tjónsatburða þurfa eigendur að vera vakandi um sína ábyrgð varðandi tryggingarnar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands.




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×