Í Atvinnulífinu á Vísi í gær og í dag, er fjallað um það hvernig vinnustaðir geta unnið að forvörnum gegn kulnun starfsfólks.
Starfsfólk og stjórnendur fá þjálfun
Sjóvá er dæmi um vinnustað sem vinnur markvisst gegn kulnun, en þar hafa verið skilgreindir sérstakir sálfélagslegir áhættuþættir sem vinnustaðurinn vaktar. Þessir áhættuhættir tengjast meðal annars stjórnun, samskiptum, skipulagi vinnu, starfahönnun, álagi, kröfum og andlegri líðan starfsfólks.
„Við leggjum mikla áherslu á að fylgjast vel með þáttum í starfsumhverfi okkar sem hafa áhrif á heilsu, vellíðan og ánægju starfsfólks,“ segir Ágústa og bætir við:
Allir starfsmenn og stjórnendur fá reglulega fræðslu um helstu einkenni streitu, viðbrögð og úrræði, sem er mjög mikilvæg forvörn.“

Þá segir Ágústa að til viðbótar við samstarf Sjóvá við Streituskólann og Hugarheim, sé reglulega staðið fyrir ýmiss konar heilsutengdum erindum fyrir starfsfólk. Þessi erindi tengjast jafnt andlegri og líkamlegri heilsu.
Til þess að tryggja að stjórnendur geti sem best fylgst með líðan starfsfólks er framkvæmt ítarlegt sálfélagslegt áhættumat reglulega. Þá segir Ágústa starfsfólk vel upplýst um það hvert það geti leitað og hvernig á að taka á málum, ef fólk er að upplifa einhver þessara einkenna.
„Það skiptir miklu máli að fólk upplifi bæði skilning, stuðning og að það séu úrræði í boði,“ segir Ágústa.
Staðan í Covid
Nú þegar fjarvinna hefur aukist má ætla að stjórnendur eigi erfiðara með að greina líðan eða einkenni vanlíðunar starfsfólks.
Ágústa segir hins vegar að ekkert bendi til þess hjá Sjóvá. Þvert á móti sýni mælingar eftir Covid jákvæða þróun á mörgum þeirra atriða sem mæld eru í sálfélagslega áhættumatinu, jafnvel þó að þær tölur hafi verið góðar fyrir.
Þegar bornar eru saman niðurstöður sálfélagslegs áhættumats 2020 við 2018, þá hefur upplifað álag og kröfur minnkað, á sama tíma og starfsánægja, stuðningur stjórnenda og ánægja með samskipti hafa aldrei mælst hærri,“
segir Ágústa.
Að hennar mati, er fyrirtækið þar meðal annars að uppskera ávinning þeirrar fyrirtækjamenningar sem Sjóvá hefur byggt upp með starfsfólki sem Ágústa segir einkennast af trausti, samheldni og umhyggju.
Á tímum Covid hafi stjórnendur og starfsfólk hreinlega fundið nýjar leiðir til að fylgjast með velferð og vellíðan starfsfólks og þessar leiðir séu að virka vel.
„Það skiptir þó eftir sem áður miklu að hafa opna umræðu, reglulega fræðslu og samskipti ásamt öflugum úrræðum.“