Blikarnir komust yfir á tólftu mínútu en skömmu fyrir hlé jöfnuðu Fylkismenn.
Ragnar Bragi Sveinsson fékk að líta rauða spjaldið á 63. mínútu og skoruðu Blikarnir sigurmarkið níu mínútum fyrir leikslok.
Breiðablik er með tólf stig eftir leikina fimm en Fylkismenn eru í öðru sætinu, með níu stig.
Þeir fara áfram á betri markahlutfalli en Leiknir sem er einnig með níu stig.
Keflavík burstaði ÍA, 4-1, í Reykjaneshöllinni. Rúnar Þór Sigurgeirsson (tvö mörk) og Davíð Snær Jóhannsson komu Keflavík í 3-0.
Ísak Snær Þorvaldsson minnkaði muninn tólf mínútum fyrir leikslok en Ástbjörn Þórðarson skoraði fjórða mark Keflvíkinga áður en yfir lauk.
Keflavík er komið áfram í átta liða úrslitin. Þeir enda í öðru sætinu með tíu stig en ÍA endar í því þriðja með sjö.
HK vann svo öruggan 5-0 sigur á Víkingi Ólafsvík í Kórnum. HK er því með tíu stig í öðru sætinu en KA getur skotist upp fyrir þá með sigri gegn Grindavík síðar í kvöld.
Ólsarar fengu ekki stig í Lengjubikarnum þetta árið og enduðu með markatöluna 2:19.