„Það þarf enginn að fara á límingunum þó hann nái þessu ekki í dag einhverja hluta vegna, en það er aðalatriði að ganga frá þessu sem fyrst,“ segir Elín Alma Arthursdóttir, vararíkisskattstjóri og sviðsstjóri álagningarsviðs, í samtali við Vísi.
Þá sé í góðu lagi að bíða með skilin fram yfir helgi ef þörf er á. Ekki er hægt að sækja um sérstakan viðbótarfrest þetta árið.
„Við tökum auðvitað á móti framtölum eins lengi og þau berast, fresturinn er vissulega út daginn í dag en sumir lenda kannski í einhverjum vandræðum og við erum hætt að veita aðstoð um helgar. Ef þú klárar á allra næstu dögum þá gerist ekki neitt, ég get alveg lofað því.“
Starfsmenn fara örþreyttir inn í helgina
Þá minnir Elín á að þeir sem njóti aðstoðar fagaðila á borð við endurskoðenda og bókara við skilin hafi frest fram til 1. apríl. Hún segir mikla vertíðarstemningu vera hjá Skattinum á þessum tíma ársins og margir starfsmenn uppgefnir eftir síðustu tvær vikur.
Ekki er síður um að ræða álagstíma hjá fagaðilum. Fyrir skömmu fékk vararíkisskattstjórinn þau skilaboð frá vinkonu sinni í faginu að síminn hafi ekki stoppað eftir að Elín ræddi framtalsskil í hádegisfréttum RÚV í dag.
Þegar Vísir talaði við hana á fimmta tímanum var búið að skila inn framtölum fyrir um það bil 210 þúsund kennitölur sem er svipað hlutfall og á sama tíma og í fyrra.
„Til viðbótar eru einhverjir tugir þúsunda sem skila í gegnum fagaðila og hafa lengri frest. Þetta er bara mjög góð staða. Svo eigum við eftir að fá eitthvað meira inn í dag og svo fáum við örugglega eitthvað yfir helgina líka.“