Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu. Þar segir að áætlað hafi verið að afhenda Evrópuþjóðunum 150 milljónir skammta á öðrum ársfjórðungi en nú sé ljóst að aðeins 70 milljónir skammta munu berast á því tímabili.
„Vegna þessa er gert ráð fyrir því að tímaáætlanir um bólusetningar færist aftur um um það bil fjórar vikur. Bólusetningardagatal heilbrigðisráðuneytisins tekur nú mið af þessum breytingum.“
Hér fyrir neðan má sjá uppfært bólusetningardagatal frá heilbrigðisráðuneytinu.
Nú hafa 33.255 einstaklingar verið bólusettir hér á landi. Áætlanir gerðu ráð fyrir um því að um 45.000 einstaklingar yrðu bólusettir hér á landi fyrir lok marsmánaðar. Í dag er gert ráð fyrir að 43.000 einstaklingar muni hafa þegið bólusetningu þá. Ráðuneytið segir að áætlanir um bólusetningar á fyrsta ársfjórðungi muni því standast.
Nýjustu afhendingaráætlanir geri ráð fyrir um 60.000 skömmtum frá Pfizer, Moderna og AstraZeneca í aprílmánuði sem munu nýtast um 30.000 manns.
Ákveðið var í gær að stöðva tímabundið notkun bóluefnis AstraZeneca hér á landi vegna nokkurra tilkynninga um blóðtappa í fólki sem bólusett hafði verið með efninu í Evrópu. Ekkert bendir þó til þess að tengsl séu á milli bóluefnisins og veikindanna. Lyfjastofnun Evrópu sagði í tilkynningu í gær að hún mælti áfram með bóluefni AstraZeneca.