Hér eru þrjú atriði sem geta hjálpað okkur.
1. Hvað gerðist?
Stundum þegar okkur líður illa, eigum við erfitt með að koma því í orð hvað er að valda þessari vanlíðan. En ef okkur líður illa er það vísbending um að við þurfum að vinna úr tilfinningum.
Sem dæmi um hvað getur gerst þegar að við vinnum ekki úr þessum tilfinningum, er að við endurupplifum aðstæður eða samtöl aftur og aftur. Hugurinn dvelur við það sem miður fór.
Góð leið til að byrja að takast á við tilfinningarnar, er að skrifa niður hvað það er sem er að valda okkur vanlíðan. Hvað gerðist eða hvað er það í umhverfinu sem okkur finnst svona erfitt? Í þessu er gott að gefa sér tíma og leggja áherslu á að skrifa niður þær hugsanir eða tilfinningar sem fylgja því sem gerðist.
2. Lærdómurinn
Annað sem gerir okkur gott er að gefa sér tíma í að velta fyrir sér, hvaða lærdóm við getum dregið af því sem gerðist.
Voru til dæmis einhverjar vísbendingar sem við hefðum átt að átta okkur á? Áttum við kannski að breyta einhverju hjá okkur sjálfum til að forðast aðstæður? Eða hefði verið betra fyrir okkur ef við hefðum sjálf brugðist öðruvísi við?
Einfalt dæmi úr vinnuumhverfinu okkar gæti verið tengt verkefni sem við vorum ekki nægilega vel undirbúin undir, sem síðan hafði einhverjar afleiðingar. Lærdómurinn þar væri þá að varast að slíkar aðstæður gætu komið upp aftur.
3. Fyrirgefningin
Sú staða getur komið upp í vinnunni að atburður eða aðstæður, jafnvel rifrildi eða togstreita, gera það að verkum að við viljum ekki hafa samneyti við ákveðið samstarfsfólk. Algeng viðbrögð eru þá að hunsa það fólk, sýna því með hegðun að þú viljir ekkert með það hafa og að eitthvað sé „geymt en ekki gleymt.“
Fyrir sjálfan þig, skiptir hins vegar miklu máli að þú fyrirgefir viðkomandi. Aðeins þannig losar þú þig undan þeirri vanlíðan sem er að trufla þig. Að fyrirgefa er mikilvægt skref til að jafna sig á erfiðleikum þannig að þeir tilheyri fortíðinni.
Að fyrirgefa kemur líka í veg fyrir að það dragi úr þér orku í hvert sinn sem þú sérð eða heyrir af þessu samstarfsfólki þínu.
Í stað þess að festast í gremju eða sárindum, er gott að hugsa frekar um hvernig þú sérð framtíðina fyrir þér. Hvernig sérðu til dæmis fyrir þér að samskiptin þín og samneyti við samstarfsfólk sé almennt háttað til framtíðar?