Í Borgarnesi var Vesturlandsslagur þar sem Snæfell var í heimsókn hjá Skallagrím og úr varð hörkuleikur. Hnífjafnt var eftir fyrsta leikhluta, 18-18, en í öðrum leikhluta voru heimakonur miklu betri og bjuggu sér til góða forystu.
Fór að lokum svo að Skallagrímur vann fimm stiga sigur, 85-80. Keira Robinson var atkvæðamest í liði Skallagríms með 30 stig en Sanja Orozovic kom næst í stigaskorun með 26 stig. Haiden Palmer var atkvæðamest gestanna með 29 stig auk þess að taka ellefu fráköst og gefa tíu stoðsendingar.
Á sama tíma voru Fjölniskonur í heimsókn hjá Keflavík. Fjölnir leiddi með einu stigi í leikhléi en þegar líða fór á leikinn sigu heimakonur fram úr og unnu að lokum nokkuð öruggan tólf stiga sigur, 72-60.
Katla Rún Garðarsdóttir var stigahæst Keflvíkinga með átján stig en Ariel Hearn hjá Fjölni með sautján stig.