Sport

Tvítug tennistjarna í sjokki eftir að hún féll á lyfjaprófi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dayana Yastremska segist vera saklaus.
Dayana Yastremska segist vera saklaus. Getty/Riccardo Antimiani

Dayana Yastremska er í 29. sæti á heimslistanum í tennis en má ekki keppa á neinum mótum á næstunni.

Yastremska féll á lyfjaprófi á móti 24. nóvember síðastliðinn en það fundust leyfar af steranum mesterolone í þvagsýni hennar.

Dayana Yastremska er tvítug og frá Úkraínu. Hún hefur hæst komist í 21. sæti lista heimslistans. Hún þykir ein af efnilegustu tenniskonum heims.

Yastremska setti inn yfirlýsingu á samfélagsmiðlum þar sem hún sagðist vera í sjokki yfir þessum fréttum auk þess að lýsa yfir sakleysi sínu.

„Ég hef aldrei notað ólögleg lyf eða bönnuð efni. Ég er furðulostin og í sjokki ekki síst þar sem að tveimur vikum fyrir þetta próf þá fannst ekkert í prófi hjá mér á WTA-móti í Linz,“ skrifaði Dayana Yastremska.

Dayana Yastremska tók einnig fram að aðeins lítið magn af efninu hafi fundist í sýni hennar og það ásamt hreina prófinu hálfum mánuði fyrr bendi til þess að prófið hennar hafi verið mengað.

„Ég er að vinna með mínu fólki að því að hreinsa nafnið mitt,“ skrifaði Yastremska. Hún hafði einnig lent í því að smitast af kórónuveirunni í lok síðasta árs.

Bannið hennar tók gildi í gær og hún má því ekki taka þátt í Opna ástralska risamótinu í febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×