Skoðun

Fyrir okkur frá vöggu til grafar

Logi Einarsson skrifar

Hvað eiga leikskólar, grunnskólar, öldrunarþjónusta og málefni fatlaðra sameiginlegt? Jú – allt er þetta dýrmæt þjónusta við fólk og er að stærstum hluta rekin af sveitarfélögum landsins. Og allt er þetta þjónusta sem við getum ekki verið án. Hún býr okkur undir flókna framtíð, lyftir undir með okkur þegar við þurfum á hjálp og aðstoð að halda og hlúir að okkur þegar krafta þrýtur eftir langa ævi. Hún hefur líka rutt konum braut út á vinnumarkaðinn - og þannig stuðlað að auknu jafnrétti kynjanna.

Kostur þess að fela sveitarfélögum þessi verkefni er að umsjón þjónustunnar færist nær fólkinu sem gerir hana sveigjanlegri og manneskjulegri. Þessi sveigjanleiki sveitarfélaga og starfsfólks þess hefur birst í aðdáunarverðri aðlögunarhæfni og þreki að undanförnu vegna heimsfaraldursins. En viðbrögðin hafa um leið kostað þau gríðarlega fjármuni.

Verja verður að alefli möguleika sveitarfélaga til að sinna áfram fyrsta flokks þjónustu á meðan veiruskrattinn er barinn niður og í þeim efnahagsþrengingum sem munu fylgja langan tíma í kjölfarið. Sveitarfélögin hafa ekki möguleika á sjálfstæðri tekjuöflun með sköttum eins og ríkið, minni heimildir til skuldsetningar og geta ekki prentað peninga eins og ríkið getur – og gerir nú. Engu að síður er sú krafa gerð á hendur sveitarfélögunum að lækka eða fresta gjöldum, halda uppi óskertri þjónustu og auka framkvæmdir sínar til að vinna gegn kreppunni. Í efnahagsþrengingunum framundan fellur það að miklu leyti í hlut sveitarfélaga að veita viðkvæmum hópum öfluga félagsþjónustu sem þörf er á. Það er ósköp eðlileg krafa íbúa að eiga greiðan aðgang að allri þjónustu, en dæmið gengur einfaldlega ekki upp án þess að ríkisstjórnin komi með stórar aðgerðir til að lyfta undir með sveitarfélögum og íbúum þeirra.

Við eigum alveg áreiðanlega eftir að komast í gegnum þessar hremmingar og lífið fer aftur að ganga aftur sinn vanagang einn góðan veðurdag. Og mikið væri það gaman ef við að nokkrum mánuðum liðnum getum hist á förnum vegi eða á kaffihúsi og spjallað um það hversu vel tókst til að koma efnahaglífinu á fulla ferð – við skulum vona að það gangi eftir. En að sama skapi yrði það ömurlegt ef við sætum uppi uppi með veikari skóla, skerta þjónustu við gamla fólkið og laskað stuðningskerfi fyrir fatlaða, innflytjendur og annað fólk sem þarf á sterku nærsamfélagi að halda.

Það má einfaldlega ekki gerast og því brýni ég ríkisstjórnina til dáða og heiti fullri aðstoð Samfylkingarinnar við mótun aðgerða í þágu sveitarfélaga og fullum stuðningi við þær. Sveitarfélögin eru nefnilega fyrir okkur frá vöggu til grafar.

Höfundur er formaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×