Alls eru nú fjögur þúsund dauðsföll rakin til sjúkdómsins Covid-19 í Bandaríkjunum. Fjöldi látinna í landinu hefur tvöfaldast á síðustu þremur dögum.
Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Johns Hopkins háskóla þá hafa nú 4.076 manns látist af völdum sjúkdómsins í Bandaríkjunum og telja staðfest kórónuveirusmit þar nú 189.510. Síðasta sólarhringinn voru skráð 865 dauðsföll sem rakin eru til veirunnar í landinu.
Rúmlega 40 prósent af staðfestum smitum hafa greinst í ríkinu New York. Greint var frá því í gær að Comfort, sjúkraskip bandaríska sjóhersins, hafi komið til borgarinnar í gær til að létta á sjúkrahúsum borgarinnar. Alls eru um þúsund sjúkrarúm um borð í skipinu.
Donald Trump Bandaríkjaforseti varaði í gær við að „mjög sársaukafullar vikur“ kunni að vera framundan, en fulltrúar bandarískra heilbrigðisyfirvalda hafa spáð að allt að 200 þúsund Bandaríkjamenn kunni að láta lífið í faraldrinum. „Þetta snýst um líf og dauða,“ sagði forsetinn.
Staðan annars staðar í heiminum
Staðfestum smitum heldur áfram að fjölga á Indlandi þar sem unnið er hörðum höndum að smíði öndunarvéla til að geta brugðist við fjölgun alvarlegra tilfella. Alls hafa nú verið staðfest 1.400 smit í landinu og telja dauðsföll sem rakin eru til Covid-19 nú 123.
Á heimsvísu hafa nú 860 þúsund kórónuveirusmit verið staðfest og stendur fjöldi dauðsfalla nú í rúmlega 42 þúsund.