Róbert Marshall hefur verið ráðinn til þriggja mánaða í stöðu upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar. Róbert verður með aðsetur í forsætisráðuneytinu og hefur störf 1. apríl næstkomandi.
Frá þessu greinir ríkisstjórnin sjálf, án þess þó að tiltaka hvers vegna talið var nauðsynlegt að fá Róbert til verksins í svo skamman tíma. Í tilkynningu Stjórnarráðsins er stiklað á stóru í ferli Róberts; þar sem meðal annars er komið við í Alþingishúsinu, netagerð í Vestmannaeyjum og á fjöllum.
Róbert er fyrrverandi alþingismaður en hefur starfað við fjallaleiðsögn, þjálfun og útivist undanfarin ár. Hann starfaði við fjölmiðla um árabil og var aðstoðarmaður samgönguráðherra áður en hann settist á þing árið 2009. Róbert er fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands og var um tíma forstöðumaður fréttasviðs 365. Hann stundaði fiskvinnslu, netagerð og sjómennsku í Vestmannaeyjum og er stúdent frá framhaldsskólanum þar. Á þingi gegndi hann m.a. þingflokksformennsku, formennsku í allsherjarnefnd, formennsku í Íslandsdeild þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og sat í umhverfis- og samgöngunefnd, Þingvallanefnd og Norðurlandaráði.