Íslendingar halda mottumars hvert einasta ár. Eitt sinn söfnuðu karlmenn yfirvaraskeggi en nú lætur fólk sér duga að kaupa skræpótta sokka. Blessunarlega segja kannski einhverjir.
En í tilnefni af mottumars tók Vísir saman merkustu mottumenni íslenskra íþrótta.
Á listanum eru ekki menn sem söfnuðu mottu af einhverju tilefni, í mottumars eða úrslitakeppni. Mennirnir hér fyrir neðan eru, eða voru, mottumenn af lífi og sál; maðurinn og mottan voru eitt.

Pétur Guðmundsson er eins og allir vita eini Íslendingurinn sem hefur leikið í NBA-deildinni í körfubolta. Hann var m.a. um tíma hjá stjörnum prýddu liði Los Angeles Lakers. Pétur, sem var tekinn inn í heiðurshöll ÍSÍ 2015, lék einnig í Argentínu og á Englandi. Pétur var jafnan vopnaður góðri mottu í baráttunni undir körfunni.

Þorbjörn Jensson skartar tilkomumikilli mottu og þeirri flottustu í handboltanum ásamt hinum þýska Heiner Brand. Þorbjörn hefur verið með mottu svo lengi sem elstu menn muna og hún er samofin ímynd hans. Þorbjörn var harður í horn að taka sem leikmaður, vann fjölda titla sem þjálfari Vals og tók svo við íslenska karlalandsliðinu.

Marteinn Geirsson átti um tíma leikjamet íslenska fótboltalandsliðsins og er markahæsti varnarmaður í sögu efstu deildar. Marteinn, sem var um tíma landsliðsfyrirliði, skartaði líka hinni laglegustu mottu. Eftir að skórnir fóru á hilluna þjálfaði hann nokkur lið og hefur starfað sem slökkviliðsmaður um áratuga skeið.

Árni Sveinsson var afar sigursæll með liði ÍA á 7. og 8. áratug síðustu aldar. Hann fór síðan í Stjörnuna og hjálpaði liðinu að komast upp í efstu deild í fyrsta sinn í sögu þess. Árni, sem lék 50 landsleiki, var líka með ræktarlegt yfirvaraskegg og minnti um margt á Brassan frábæra, Rivellino.

Alexander Ermolinskij kom til Íslands 1992 eftir flottan feril í Sovétríkjunum og Ungverjalandi. Hann lék eingöngu með liðum í gulu hér á landi; Skallagrími, ÍA og Grindavík og varð bikarmeistari með síðastnefnda liðinu. Alexander lék bæði með sovéska og íslenska landsliðinu og starfaði við þjálfun hér á landi. Hann á eitt svalasta augnablik íslenskrar íþróttasögu þegar hann kyssti boltann áður hann setti niður þriggja stiga skot í leik með Skallagrími.

Gunnlaugur Hjálmarsson var ein af fyrstu handboltastjörnum Íslands og lék á þremur heimsmeistaramótum. Hann var þriðji markahæsti leikmaður HM 1961 og var valinn í heimsliðið fyrstur Íslendinga. Gunnlaugur hellti sér síðan út í dómgæslu og dæmdi fram á sjötugsaldur. Það var ekki vænlegt til árangurs að rífa kjaft við mann með svona vígalega mottu.

Sigfried Held stýrði íslenska karlalandsliðinu á árunum 1986-89. Hann var þekktur leikmaður á sínum tíma og var í silfurliði Vestur-Þjóðverja á HM 1966. Hann lék yfir 40 landsleiki fyrir Vestur-Þýskaland og varð Evrópumeistari bikarhafa með Borussia Dortmund. Auk Íslands þjálfaði Held í Þýskalandi, Tyrklandi, Austurríki, á Möltu og í Taílandi.

Ingvar Jónsson er oft kallaður guðfaðir körfuboltans í Hafnarfirði. Hann var prímusmótorinn í starfi Hauka um langt skeið og synir hans og sonarsynir hafa einnig gert það gott í körfuboltanum. Ingvar var einnig með myndarlega mottu eins og myndin hér fyrir ofan ber vitni um.