Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra baðst í gær afsökunar á að hafa verið í samkvæmi sem lögreglan leysti upp í Ásmundarsal á Þorláksmessu vegna brota á sóttvarnarreglum.
Hvorki forsætisráðherra né fjármálaráðherra hafa svarað fyrirspurnum fréttastofu vegna málsins. Heilbrigðisráðherra sagði í gær að sóttvarnaráðstafanir væru til að fara eftir þeim.
Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðiprófessor, segir þetta mál eiga eftir að reynast ríkisstjórninni erfitt.
„Þetta er auðvitað mjög erfitt fyrir samstarfið. Málið er fyrst og fremst allnokkuð vandræðalegt og það auðvitað veldur töluverðum titringi innan ríkisstjórnar samstarfsins. Þetta kemur líka á tíma þar sem er fari að gæta töluverðrar þreytu varðandi sóttvarnaráðstafanir. Helsti forystumaður ríkisins fer á sveig við þær reglur. Það verður til þess að draga þróttinn að mörgu leyti úr þessum ráðstöfunum, og eykur erfiðleikana í samstarfinu, sem mátti ekki einfaldlega við mjög miklu,“ segir Eiríkur Bergmann.

Líkur séu á að málið muni reynast Vinstri grænum erfiðara en Sjálfstæðisflokknum.
„Það er ýmislegt sem bendir til að kjósendur Sjálfstæðisflokksins séu ekki jafn fylgjandi sóttvarnareglum og kjósendur Vinstri grænna. Eigi að síður er það þannig að við erum að tala um forystumann í ríkisstjórn sem setur þessar reglur. Mér finnst þetta lýsa því hversu íþyngjandi margt af þessu er. Ráðamenn eru að setja reglur sem þeir treysta sér ekki fyllilega til að fara eftir sjálfir. Það er auðvitað líka rétt að það er ekki víst að þetta komi harðar niður á Sjálfstæðisflokknum en samstarfsflokkunum þegar upp er staðið,“ segir Eiríkur.
Fjármálaráðherra hafi staðið ýmislegt af sér á löngum ferli og eigi talsvert inni í stjórnmálum. Lögreglan er þó enn með málefni Ásmundasalar til rannsóknar.
„Og það er í sjálfu sér ekkert endilega sem bendir til að hann verði neyddur til afsagnar alveg í bráð,“ segir Eiríkur og telur ekki fráleitt að halda að Bjarni muni standa þessa hríð af sér. Formaður Sjálfstæðisflokksins sé þó laskaður, í það minnsta til skamms tíma, svo eigi eftir að koma í ljós hvort eitthvað muni eima af málinu síðar meir.
Hann segir marga þætti ráða því hvort ríkisstjórnarsamstarf lifi af svona atvik. Lítið sé þó að sjá í yfirlýsingum stjórnmálamanna sem gefi til kynna að svo stöddu að ríkisstjórnin falli út af þessu máli.