Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum.
Þar segir að almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjórinn á Austurlandi hafi fundað með ofanflóðasérfræðingum Veðurstofu Íslands, aðgerðastjórn og vettvangsstjórn í lok dags.
„Sérfræðingar Veðurstofu Íslands unnu ásamt samstarfsaðilum með aðstoð sérsveitar ríkislögreglustjóra og björgunarsveita að gagnasöfnun, endurmælingum og uppsetningu nýrra mælipunkta á skriðusvæðunum á Seyðisfirði. Þessi gögn verða skoðuð í kvöld og fyrramálið og frekari ákvarðanir teknar varðandi rýmingu og hreinsun á rýmingarsvæðum á morgun,“ segir í tilkynningunni.
Íbúar á nokkrum svæðum sem hefur þurft að rýma fengu að huga að eignum sínum í dag með aðstoð björgunarsveita. Rafrænn íbúafundur var haldinn í dag á vegum sveitarfélagsins Múlaþings þar sem upplýsingum var komið til íbúa og þeim gefinn kostur á að spyrja spurninga. Almannavarnir vinna þá að uppsetningu þjónustumiðstöðvar í Herðubreið á Seyðisfirði og mun hún opna á morgun.
Á morgun verður haldinn íbúafundur fyrir Eskfirðinga kl 18:00. Fundurinn verður í beinu streymi á heimasíðu Fjarðabyggðar.