Fram kemur í tilkynningu frá Útlendingastofnun að smit hafi komið upp meðal íbúa þar. Fyrsti einstaklingurinn hafi greinst smitaður í húsnæðinu fyrr í vikunni og aðrir íbúar þegar farið í sóttkví. Nokkrir hafi svo greinst smitaðir í gær.
Gripið hafi verið til allra viðeigandi ráðstafana til að ná tökum á útbreiðslunni og þau smituðu flutt í farsóttarhús í samvinnu við almannavarnir. Hafnarfjarðarbær þjónusti þá sem dvelji í sóttkví.
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum sagði í samtali við fréttastofu í morgun að alls væru átta smitaðir í tengslum við hópsmitið, þar af greindust sex í gær. Hann sagði að uppruni smitsins væri þekktur en hafði ekki frekari upplýsingar um smitrakningu.