Geimvísindastofnun Bandaríkjanna (NASA) hefur gefið fyrirtækinu SpaceX grænt ljós á að senda geimfara til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar (ISS) á laugardagskvöldið. Þá varð fyrirtækið í gær það fyrsta til að fá vottun NASA til mannaðra geimferða.
SpaceX mun á laugardagskvöldið skjóta fjórum geimförum út í geim. Það eru þau Shannon Walker, Victor Glover og Mike Hopkins frá NASA og Soichi Nohuchu, frá Geimvísindastofnun Japan (JAXA).
Geimfarið er klárt á skotpalli í Flórída.
Crew access arm swings into place pic.twitter.com/XAImd6nLJV
— SpaceX (@SpaceX) November 11, 2020
Einnig verða margskonar vísindarannsóknir fluttar til geimstöðvarinnar. Þær snúa meðal annars að því hvaða áhrif vera í geimnum hefur á ónæmiskerfi manna og heila þeirra. Geimfararnir munu einnig gera tilraunir með ræktun radísa út í geimi, tilraunir með líffæri og ýmislegt annað.
Ein mikilvægasta tilraunin snýr þó að nýrri kynslóð geimbúninga NASA og munu geimfararnir sérstaklega gera tilraunir á hitajöfnunarkerfi búninganna.
SpaceX varð í gær fyrsta einkafyrirtækið til að verða vottað af NASA til að flytja geimfara stofnunarinnar út í geim. SpaceX skaut fyrstu geimförunum á loft frá Bandaríkjunum í tæpan áratug í vor og var það í fyrsta sinn sem fyrirtækið skaut geimförum til ISS.
Þá var notast við Falcon 9 eldflaug og Crew Dragon geimfar og er það sömuleiðis gert núna og í næstu geimskotum.
Geimfararnir Doug Hurley og Bob Behnken sneru svo aftur til jarðarinnar í ágúst.
Sjá einnig: Á leið til geimstöðvarinnar eftir fullkomið geimskot
Vottun Crew Dragon, Falcon 9 og allra kerfa á jörðu niðri er í fyrsta sinn sem NASA vottar nýtt geimfar í nærri því 40 ár, samkvæmt tilkynningu frá NASA. NASA hefur einnig gert samkomulag við Boeing um að flytja menn og farm út í geim en fyrirtækið hefur ekki enn tekist að framkvæma tilraunaskot. Til stendur að reyna ómannað skot á næsta ári.
Til stendur að senda sjö geimför SpaceX til ISS á næstu 15 mánuðum. Þar er bæði um mannaðar geimferðir og birgðasendingar að ræða. SpaceX mun því verða með stöðuga viðveru við geimstöðina á því tímabili. Eftir hvert geimskot verða tvö Dragon geimför út í geimi í einhvern tíma.
Samvinna NASA og einkafyrirtækja að mönnuðum geimferðum er liður í margra ára áætlun stofnunarinnar sem miðar að því að koma mönnum aftur til tunglsins og lengra út í sólkerfið.
Í fyrra voru 50 ár liðin frá því að menn lentu fyrst á tunglinu. Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, tilkynnti á fundi Geimráðs ríkisins í fyrra, að flýta ætti áætlun NASA, sem ætlaði að senda menn til tunglsins fyrir 2028. Þess í stað yrðu menn sendir til tunglsins fyrir 2024.
Verkefnið ber heitið Artemis, í höfuð grísku gyðjunnar. Artemis er systir Apollo. Eins og frægt er var það nafn verkefnisins sem sneri að tunglferðunum sem farnar voru á árum áður.
Markmiðið er að nota tunglið svo sem stökkpall fyrir frekari geimferðir lengra út í sólkerfið. Jafnvel stendur til að gera nýja heimstöð á braut um tunglið. Rannsóknir sýna að finna má ís í gígum á pólum tunglsins og þann ís má bæði nota til að framleiða eldsneyti fyrir geimför og halda við byggð manna á tunglinu.
Með því að skjóta geimförum af stað frá tunglinu í stað yfirborðs jarðarinnar væri hægt að spara mikið eldsneyti og í senn gera geimförum kleift að fljúga hraðar. Sérstaklega stendur til að nota tunglið sem stökkpall til Mars. Til að byrja með.