Ósk Sigurðardóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar – landssambands hreyfihamlaðra.
Í tilkynningu kemur fram að hún hefji störf 1. nóvember næstkomandi.
„Ósk er menntaður iðjuþjálfi frá Danmörku, er með MPM meistaragráðu í verkefnastjórnun og framhaldsnám í straumlínustjórnun frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur einnig lokið Postgraduate gráðu í nýsköpun og stefnumótun frá Oxford Háskóla og leggur nú lokahönd á MBA gráðu.
Ósk hefur ma. starfað sem verkefnastjóri á skrifstofu forstjóra Landspítala, starfað sem formaður iðjuþjálfafélags Íslands og sem kennari í nýsköpun við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri. Ósk er einnig samfélagslegur frumkvöðull og er eigandi og stofnandi TravAble sem veitir fólki með hreyfihömlun upplýsingar um aðgengi að byggingum og þjónustu,“ segir í tilkynningunni.
Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra samanstendur af tólf Sjálfsbjargarfélögum sem eru dreifð um landið. Hlutverk Sjálfsbjargar er að vinna að fullkominni þátttöku og jafnrétti hreyfihamlaðs fólks á Íslandi og eftir atvikum annarra fatlaðra og gæta réttinda og hagsmuna þess.
Sjálfsbjörg á og rekur húsnæði landsambandsins í Hátúni 12, þar er rekstur Sjálfsbjargarheimilisins, sem annast hjúkrun og endurhæfingu fyrir hreyfihamlaða.