Hinn 27 ára gamli Odell Beckham Junior – leikmaður Cleveland Browns í NFL-deildinni í Bandaríkjunum – mun ekki leika meira á þessari leiktíð. Hann varð fyrir því óláni að slíta krossband í hné er Browns vann Cincinnati Bengals í gær, sunnudag.
Odell Beckham fór meiddur af velli í fyrsta leikhluta leiksins í gærkvöld. Félagið staðfesti svo í dag að um slitið krossband væri að ræða. Talið er að útherjinn knái verði frá í sex til níu mánuði vegna meiðslanna.
Odell Beckham Jr. says he suffered a torn ACL against the Bengals and is out for the season, per @JosinaAnderson pic.twitter.com/RE9q9RnkVu
— Bleacher Report (@BleacherReport) October 26, 2020
Beckham hafði farið ágætlega af stað með Browns, gripið 23 sendingar fyrir alls 291.6 metra og skorað þrjú snertimörk.
Browns eru sem stendur í 3. sæti í AFC-Norður hluta NFL-deildarinnar með fimm sigra og tvö töp til þessa.