Erlent

Aflétta takmörkunum í stærstu borg Nýja-Sjálands

Kjartan Kjartansson skrifar
Jacinda Ardern forsætisráðherra greiðir utankjörfundaratkvæði fyrir þingkosningar sem fara fram 17. október. Ríkisstjórn hennar hefur náð góðum árangri í að bæla niður faraldurinn og er með drjúgt forskot í skoðanakönnunum.
Jacinda Ardern forsætisráðherra greiðir utankjörfundaratkvæði fyrir þingkosningar sem fara fram 17. október. Ríkisstjórn hennar hefur náð góðum árangri í að bæla niður faraldurinn og er með drjúgt forskot í skoðanakönnunum. Vísir/EPA

Íbúar Auckland, stærstu borgar Nýja-Sjálands, þurfa ekki lengur að huga að fjarlægðarreglum á börum og veitingastöðum þegar slakað verður á sóttvarnaraðgerðum þar í vikunni. Hundrað manna samkomubann verður sömuleiðis afnumið nú þegar engin ný kórónuveirusmit hafa greinst í borginni í tíu daga í röð.

Á sama tíma og kórónuveirufaraldurinn er víða í vexti aftur, þar á meðal á Íslandi, slaka nýsjálensk stjórnvöld á sínum aðgerðum. Ný hópsýking veirunnar sem kom upp í Auckland í ágúst var sú stærsta í faraldrinum til þessa og leiddi til þess að aðgerðir voru hertar þar.

Aðgerðirnar báru ávöxt og segir Jacinda Ardern, forsætisráðherra, að slakað verði á þeim eina mínútu fyrir miðnætti á miðvikudagskvöld.

„Það eru nú 95% líkur á því að hópsýkingunni hafi verið útrýmt. Covid-19 verður áfram með okkur í marga mánuði til viðbótar en við ættum samt að huga að þessum tímamótum,“ sagði Ardern í dag.

Aðeins einn greindist smitaður á Nýja-Sjálandi í dag. Að sögn Reuters-fréttastofunnar var það eyjaskeggi sem kom heim frá útlöndum. Í heildina hafa 1.499 greinst smitaðir í landinu frá upphafi faraldursins og 25 látið lífið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×