Kona nokkur hefur verið ákærð fyrir hótanir í garð fyrrverandi eiginmanns síns og brot gegn blygðunarsemi hans með því að senda öðrum myndir af eiginmanninum fáklæddum og í kynferðislegum athöfnum.
Málið er til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjaness þar sem konan neitar sök. Aðalmeðferð fer fram í vikunni. Meint brot áttu sér stað í september, nóvember og desember árið 2018.
Konan er ákærð fyrir að hafa hótað eiginmanninum fyrrverandi að dreifa kynferðislegu mynefni af honum. Svo hafi hún sent honum skilaboð í tölvupósti sem fólu í sér hótanir þess efnis að hann yrði niðurlægður á samfélagsmiðlum.
Ákæran fyrir blygðunarsemi snýr að því að konan hafi sent systur sinni smáskilaboð með tveimur myndum af eiginmanninum fyrrverandi og ónefndri konu í kynferðislegum athöfnum.
Nokkrum vikum síðar á hún að hafa sent eiginmanninum fyrrverandi í tölvupósti eitt skjáskot með átta myndum af honum og ónefndri konu fáklæddum og í kynferðislegum athöfnum.
Er konunni gefið að sök að hafa móðgað og smánað eiginmanninn fyrverandi og vekja hjá honum ótta um velferð sína.
Karlmaðurinn krefst tveggja milljóna króna í miska- og skaðabætur.