Saksóknarar í Noregi hafa farið fram á að Gunnar Jóhann Gunnarsson verði dæmdur til þrettán ára fangelsisvistar fyrir að hafa orðið hálfbróður sínum, Gísla Þór Þórarinssyni, að bana í bænum Mehamn í apríl á síðasta ári.
Málflutningi lýkur í héraðsdómi Austur-Finnmerkur síðar í dag og sagði saksóknarinn, Torstein Lindquister, í morgun að ákærði hafi bæði hótað að drepa, undirbúið að drepa og að lokum drepið bróður sinn.
Frá þessu segir í frétt staðarmiðlinum iFinnmark í dag, en réttarhöld hafa staðið í málinu síðustu daga.

Átti engan möguleika
Gunnar hefur haldið því fram að um slysaskot hafi verið að ræða, en saksóknari segir drápið hafa verið að yfirlögðu ráði.
„Bróðirinn átti engan möguleika þar sem hann stóð nakinn, án nokkurrar unadankomuleiðar. Við getum bara ímyndað okkur síðustu mínútur Gísla þegar hann gerði sér grein fyrir því að bróðirinn ætlaði ekki að lyfta fingri til að hjálpa honum, heldur þvert á móti,“ sagði saksóknarinn.

Kærleikurinn getur verið miskunnarlaus
Lindquister sagði í morgun að ákærði hafi verið verið afbrýðisamur þar sem Gísli Þór hafi tekið saman við fyrrverandi kærustu og barnsmóður Gunnars. „Allir geta skilið að það var erfitt fyrir ákærða að glíma við þessar aðstæður, að konan sem hann elskaði á sinn máta hafi hafið ástarsamband með bróðurnum. Kærleikurinn getur verið miskunnarlaus – það var nokkuð sem að ákærði fékk að kenna á,“ sagði Lindquister.
Saksóknarinn sagði að þó að vel megi skila þjáninguna sem Gunnar hafi fundið fyrir þá skuli það ekki leiða til vægari dóms.
„Fyrrverandi kona ákærða hefur með gjörðum hans misst kærasta sinn, og í reynd fyrrverandi eiginmann sinn. Hún hefur hún ein um umsjá með börnum hennar og ákærða,“ sagði Lindquister.
Verjandi Gunnars, Bjørn Andre Gulstad, mun taka til máls síðar í dag, að því er fram kemur í frétt iFinnmark.