Illa farnir trébátar hafa rekið um Japanshaf mánuðum saman. Eini farmurinn eru beinagrindur norðurkóreskra sjómanna. Á síðasta ári skolaði 150 slíkum bátum á land í Japan. Rúmlega 500 á síðustu fimm árum. Þetta undarlega fyrirbrigði olli japönsku lögreglunni miklum heilabrotum árum saman. Helsta tilgátan var sú að loftslagsbreytingar hefðu fælt smokkfisksstofninn í burtu frá Norður-Kóreu. Því hefðu sjómenn leitað lengra út á haf í örvæntingu sinni, strandað og dáið. Ólöglegar veiðar Rannsókn alþjóðlegs teymis fræðimanna, Ians Urbina, rannsóknarblaðamanns hjá New York Times og forsprakka The Outlaw Ocean Project, og óháðu félagasamtakanna Global Fishing Watch, sem nýta gervihnetti og gervigreind til að rekja ólöglega starfsemi úti á hafi, leiddi þó líklegri skýringu í ljós. Að Kínverjar séu að senda áður óþekktan flota skipa til ólöglegra veiða í norðurkóreskri lögsögu, hrekja þannig smærri, norðurkóreska báta á brott og ganga á smokkfisksstofninn, sem hefur minnkað um rúm sjötíu prósent. Þessir kínversku bátar, um 800 talsins á síðasta ári, virðast brjóta gegn viðskiptaþvingunum Sameinuðu þjóðanna sem banna veiðar utanaðkomandi aðila á norðurkóreskum miðum. Þvingununum, sem voru settar á árið 2017 sem svar við kjarnorkutilraunum ríkisins, var ætlað að refsa ríkinu með því að banna sölu veiðileyfa. Hundruðum norðurkóreskra fiskibáta hefur skolað á strendur Japans undanfarin ár.Vísir „Þetta er stærsta dæmið um ólöglegar veiðar staks flota í lögsögu annars ríkis,“ segir Jaeyoon Park hjá Global Fishing Watch. Brot á viðskiptaþvingunum Kína er meðlimur öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem skrifaði einróma undir viðskiptaþvinganirnar gegn Norður-Kóreu. Flotinn sem brýtur nú gegn þvingununum samanstendur hins vegar af nærri þriðjungi allra þeirra kínversku skipa sem veiða á fjarlægum miðum, samkvæmt Global Fishing Watch. Þegar niðurstöður rannsóknarinnar voru bornar undir kínverska utanríkisráðuneytið fékkst það svar að Kína hefði staðfastlega staðið við viðskiptabann öryggisráðsins. Kína hefði í þokkabót refsað samviskusamlega fyrir ólöglegar veiðar. Í mars sendu tvö ríki inn nafnlausa kvörtun til Sameinuðu þjóðanna um meint brot Kínverja á þvingununum og létu sönnunargögn fylgja með. Meðal annars gervihnattamyndir af kínverskum skipum við veiðar í norðurkóreskri lögsögu og vitnisburð kínverskra fiskimanna sem sögðust hafa gert kínverskum stjórnvöldum viðvart um áform sín. Miðin á Japanshafi liggja á milli Kóreuskagans, Japans og Rússlands. Hart er barist um miðin og eftirlitið er lítið. Hingað til hefur vera kínverskra báta á svæðinu verið hulin, enda slökkva skipstjórarnir gjarnan á ratsjárvörum. Því eru bátarnir svo gott sem ósýnilegir úr landi, sem er ólöglegt undir flestum kringumstæðum. Global Fishing Watch og aðrir rannsakendur náðu hins vegar að skrá ferðir þessara báta með aðstoð gervihnattatækni. Meðal annars var stuðst við gervihnött sem nemur björt ljós að nóttu til. Margir þessara smokkfisksbáta nýta afar sterk ljós til þess að tæla bráðina nær yfirborði sjávar. Kínverjarnir hafa einnig stuðst við aðferð sem nefnist tvílembingstog og gerir það eftirlitið auðveldara. Ekkjubæir Fjöldi þeirra Norður-Kóreumanna sem hafa horfið úti á hafi á síðustu árum er svo mikill að sumir norðurkóreskir hafnarbæir, til dæmis Chongjin á austurströndinni, eru núna kallaðir „ekkjubæir“. Á síðasta ári einu skolaði fleiri en fimmtíu látnum Norður-Kóreumönnum að ströndum Japans, samkvæmt japönsku strandgæslunni. Þessi fjölgun hinna svokölluðu draugabáta hefur leitt til aukinnar spennu á milli Japans og Norður-Kóreu. Sumir Japanar hafa sett fram kenningar um að njósnarar, þjófar eða jafnvel sýklavopn séu um borð í bátunum. „Ef kóreskt skip hefur villst af leið er það orðið ónýtt þegar því skolar upp á okkar strendur,“ sagði Kazuhiro Araki, framkvæmdastjóri Abduction Research Organization, samtaka sem rannsaka sögu þeirra hundraða Japana sem Norður-Kóreumenn eru sakaðir um að hafa numið á brott á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. „En sum skipin eru heil og mannlaus þegar þau koma að landi. Þá er mögulegt að njósnarar hafi komist hingað til lands.“ Þetta eru flatbytnur, þaktar skeljum og þörungum. Um fjórir til sex metrar að lengd og byggðar fyrir fimm til tíu manna áhöfn. Engin klósett eða rúm eru um borð, einungis kútar með vatni, net og beita, að því er kemur fram í skýrslu japönsku strandgæslunnar. Tættir norðurkóreskir fánar eru á skipinu, sem eru gjarnan merkt ríkisstofnunum eða hernum. Kínverjar hafa sótt verulega inn á mið Norður-Kóreu og hrakið þaðan norðurkóreska fiskibáta á brott.Vísir Öll þau lík sem hafa fundist um borð á bátunum virðast karlkyns. Sum hafa hins vegar verið svo illa farin að erfitt er að skera úr um það. Þá veldur togstreitan á milli Japans og Norður-Kóreu því að erfitt er að fá skýringar þaðan. Sjávarútvegur mikilvægur Norður-Kóreu Kínverjar skrifuðu undir margra milljóna dala samning um veiðirétt við Norður-Kóreu árið 2004. Í kjölfarið fjölgaði kínverskum bátum í norðurkóreskri lögsögu mikið. Alþjóðlegu viðskiptaþvinganirnar sem voru samþykktar árið 2017, vegna eldflauga- og kjarnorkutilrauna Norður-Kóreu, áttu að skera á flæði fjármagns til landsins. Kínverjar, sem hafa lengi verið bandamenn Norður-Kóreu, samþykktu þvinganirnar eftir þrýsting Bandaríkjamanna og í ágúst árið 2017 sagði viðskiptaráðherra Kínverja ríkisstjórnina staðráðna í að framfylgja nýju reglunum. Sjávarfang er enn í sjötta sæti á listanum yfir helstu útflutningsvörur Norður-Kóreu. Kim Jong-un, einræðisherra landsins, hefur lagt áherslu á sjávarútveginn í ræðum sínum nýverið. „Fiskurinn er eins og byssukúlur eða stórskotakupsbúnaður,“ sagði í ritstjórnargrein í Rodong Sinmun, dagblaði Verkamannaflokks Kóreu, árið 2017. „Fiskibátar eru eins og orrustuskip. Þeir verja þjóðina og móðurlandið.“ Í ljósi viðskiptaþvingana Sameinuðu þjóðanna og nú þegar gjaldeyrisforðinn hefur minnkað reynir norðurkóreska ríkisstjórnin að styrkja sjávarútveginn með því að breyta hermönnum í sjómenn og senda þá illa þjálfaða út á hættuleg miðin. Viðskiptaþvinganirnar hafa sömuleiðis gert eldsneytisskortinn í landinu enn verri. Japanskir rannsakendur segja að sumir þeirra norðurkóresku báta sem skolað hefur á land hafi verið eldsneytislausir. Frá því 2013 hefur að minnsta kosti fimmtíu verið bjargað af þessum hrörlegu bátum. Í viðtölum við japönsku lögregluna hafa sjómennirnir lítið annað sagt en að þeir hefðu verið fastir úti á sjó og vildu komast heim til Norður-Kóreu. Krufningar á hinum látnu hafa sýnt að flestir fórust úr hungri, vökvaskorti eða ofkælingu. Norðurkóreskur fyrrverandi sjómaður, sem flúði til Suður-Kóreu árið 2016 og býr nú í Seúl, segir að árið 2013 hafi norðurkóreskir bátar einungis verið um tólf hestöfl og því ekki geta ferðast langt frá landi. „Þrýstingurinn frá ríkisstjórninni er meiri núna og þarna eru 38 hestafla vélar,“ segir flóttamaðurinn sem bað um að nafni hans yrði haldið leyndi til þess að leggja ekki fjölskyldu sína í hættu. „Fólkið er nú orðið örvæntingarfullt og getur farið lengra út á haf.“ Rannsakendur telja þó að þrýstingur stjórnvalda sé ekki eini þátturinn. „Samkeppni við kínverska togara er trúlega að þrýsta norðurkóreskum bátum í burtu og inn í rússneska lögsögu,“ segir Jungsam Lee, en samtökin hans komust að því að hundruð norðurkóreskra báta stunduðu ólöglegar veiðar á rússneskum miðum árið 2018. Árið 2017 kom japanska strandgæslan auga á rúmlega 2.000 norðurkóreska báta sem voru við ólöglegar veiðar við Japan. Í rúmlega 300 tilfellum nýtti strandgæslan vatnsbyssur til þess að hrekja bátana á brott. Stofninn að hverfa Um allan heim hverfa nú margar tegundir fiska og sjávardýra vegna loftslagsbreytinga, ofveiða og ólöglegra veiða iðnaðarflota. Eftir því sem stofnar minnka eykst samkeppnin og átök á milli fiskveiðiþjóða verða algengari. Mikil sjávarfangsríki á borð við Japan og Suður-Kóreu eiga nú í hættu á að verða undir í samkeppni við stækkandi flota frá Taívan, Víetnam og einna helst Kína. Smokkfisksstofninn hefur minnkað um rúm sjötíu prósent undanfarin ár.Vísir Kína, með sína 1,38 milljarða íbúa, er orðið það land sem neytir mests sjávarfangs. Heildarafli Kínverja hefur aukist um rúm tuttugu prósent á síðustu fimm árum. Margir þeirra stofna sem eru næst ströndum Kína hafa horfið vegna ofveiða og því hefur ríkisstjórnin veitt sjómönnum beinan stuðning svo þeir geti siglt um allan heim að leita að nýjum miðum. Kínversk skip veiddu á milli 50 og 70 prósent alls smokkfisks sem veiddist á alþjóðlegu hafsvæði á síðustu árum, samkvæmt mati kínverskra stjórnvalda. Oft veiða þessir bátar ólöglega í lögsögu annarra ríkja, samkvæmt greiningu rannsakenda hjá C4ADS. Á Japanshafi eru svæði þar sem Japan, Rússland og Kóreuríkin tvö geta ekki komið sér saman um hvar mörkin liggja. Áhlaup Kínverja á svæðið hefur aukið á togstreitunna á milli þessarra ríkja. Togstreita og árásargirni Kínversk fiskiskip eru alræmt fyrir árásargirni sína. Þau eru oft búin vopnum og eru þekkt fyrir að sigla á skip samkeppnisaðila eða jafnvel eftirlitsskip. Kínverskir miðlar lýsa þessum átökum við önnur Asíuríki sem eins konar framhaldi af kínversku konungsríkjunum þremur til forna, sem kepptust gjarnan um yfirráð. Spennan á milli Seúl og Peking jókst til muna árið 2016 eftir að kínverskt skip, sem var við ólöglegar veiðar við Suður-Kóreu, sökkti suðurkóreskum strandgæslubát. Sá bátur var í suðurkóreskri lögsögu og var að reyna að stöðva annað kínverskt skip sem var við ólöglegar veiðar. Blaðamennirnir sem komu að þessari grein náðu myndböndum af því þegar tíu kínversk fiskiskip sigldu inn í norðurkóreska lögsögu. Þeir þurftu hins vegar að hverfa af braut eftir að eitt kínversku skipanna reyndi að sigla á bát blaðamannanna. Atvikið átti sér stað um miðja nótt, um hundrað mílur frá landi, og kínversku smokkfisksskipin svöruðu engum skilaboðum. Um átta hundruð kínverskir smokkfiskveiðibátar sóttu inn á mið Norður-Kóreu í fyrra og brutu þar með gegn viðskiptaþvingunum Sameinuðu Þjóðanna.Vísir Á milli 2017 og 2018 veiddu kínverskir bátar, sem voru við ólöglegar veiðar, jafnmikið af smokkfiski og Japan og Suður-Kórea til samans. Um 160 þúsund tonn, 440 milljóna dala virði. Rannsakendur óttast algjört hrun smokkfisksstofnsins, en hann hefur minnkað um allt að 78 prósent í suðurkóreskri og japanskri lögsögu frá árinu 2003. Kínverski flotinn er helsti sökudólugurinn í þessu máli. Með því að veiða á norðurkóresku hafsvæði eru skipin að sópa upp þeim smokkfiski sem er orðinn nógu þroskaður til að hrygna, segir Park, sérfræðingurinn frá Global Fishing Watch. Þar sem kínversk yfirvöld gera upplýsingar um veiðileyfi ekki opinberar er ógerningur að sannreyna að öll kínversku skipin sem veiða við Norður-Kóreu geri það með leyfi stjórnvalda, segja sérfræðingar Global Fishing Watch. Samtökin segja hins vegar víst að skipin séu í raun kínversk. Á meðal þess sem styður þá fullyrðingu eru gögn sem suðurkóreska strandgæslan hefur safnað við eftirlit á skipum sem sigla inn í norðurkóreska lögsögu, gögn sem sýna að kínvesrkur búnaður hefur verið notaður og gervihnattarmyndir sem sýna að skipin höfðu áður veitt á kínverskum miðum, sem skip frá öðrum ríkjum mega ekki veiða á. Yfirgangur á Ulleung „Þegar þau koma hingað þá tröllríða þau öllu,“ segir Kim Byong Su, bæjarstjóri á Ulleung-eyju, um 120 kílómetra austur af Kóreuskaga. Ulleung er agnarsmá eyja en þar er næsta höfn Suður-Kóreumanna við norðurkóresku miðin. Kim segir að kínversku smokkfiskabátarnir hafi tortímt tveimur helstu atvinnuvegum eyjarinnar, ferðaþjónustu og sjávarútvegi. Á Jeodong-markaðnum nærri höfninni má finna smokkfiska í röðum og segja kaupmennirnir að verðið nú sé einungis þriðjungur af því sem var fyrir fimm árum. Flestir þeirra karlmanna yfir fertugu sem búa á eyjunni hafa unnið við að að veiða smokkfisk. Nærri þriðjungur er nú atvinnulaus, vegna hruns stofnsins, að sögn bæjarstjórans. Hvarf smokkfisksins hefur gjörbreytt samfélaginu á Ulleung. Lengst af hafa veitingastaðir eyjarinnar selt þurrkaðan eða hráan smokkfisk í forrétt en slíkt tíðkast varla lengur. Ekki bætir úr skák að kínverski flotinn leitar stundum í skjól í höfninni þegar illa viðrar. Um 200 skip koma gjarnan saman og borgarstjórinn getur ekki vísað þeim frá. „Þeir hella olíu fyrir borð, henda rusli á víð og dreif, háværar rafstöðvar blása reyk yfir eyjuna alla nóttina og akkerin skemma ferskvatnsleiðslur hér,“ segir Kim og bætir við: „Umheimurinn þarf að vita hvað er í gangi hérna.“ Þessi umfjöllun er unnin í samstarfi við Ian Urbina, bandarískan rannsóknarblaðamann, og The Outlaw Ocean Project. Norður-Kórea Kína Loftslagsmál Sameinuðu þjóðirnar Sjávarútvegur Fréttaskýringar Mest lesið Mun færri slasaðir eftir skíðaslysið en talið var í fyrstu Erlent „Ég hef enga hugmynd um hvaða maður þetta er“ Innlent „Algjört þjóðaröryggismál að hafa þetta í lagi“ Innlent Fundu villtan mann í skítaveðri á Fagradalsfjalli Innlent Grímuklæddi maðurinn kúkaði aftur á bílinn Innlent Ný og glæsileg heilsugæslustöð opnuð í Vogum Innlent E. coli fannst í neysluvatni Innlent Prófessorar íhuga verkfall: „40% akademísks starfsfólks í kulnun eða komin langt á leið“ Innlent Fengu tæpar fimm og sex milljónir króna í tvöföldum launagreiðslum Innlent Drepin í árás daginn fyrir vopnahlé Innlent
Illa farnir trébátar hafa rekið um Japanshaf mánuðum saman. Eini farmurinn eru beinagrindur norðurkóreskra sjómanna. Á síðasta ári skolaði 150 slíkum bátum á land í Japan. Rúmlega 500 á síðustu fimm árum. Þetta undarlega fyrirbrigði olli japönsku lögreglunni miklum heilabrotum árum saman. Helsta tilgátan var sú að loftslagsbreytingar hefðu fælt smokkfisksstofninn í burtu frá Norður-Kóreu. Því hefðu sjómenn leitað lengra út á haf í örvæntingu sinni, strandað og dáið. Ólöglegar veiðar Rannsókn alþjóðlegs teymis fræðimanna, Ians Urbina, rannsóknarblaðamanns hjá New York Times og forsprakka The Outlaw Ocean Project, og óháðu félagasamtakanna Global Fishing Watch, sem nýta gervihnetti og gervigreind til að rekja ólöglega starfsemi úti á hafi, leiddi þó líklegri skýringu í ljós. Að Kínverjar séu að senda áður óþekktan flota skipa til ólöglegra veiða í norðurkóreskri lögsögu, hrekja þannig smærri, norðurkóreska báta á brott og ganga á smokkfisksstofninn, sem hefur minnkað um rúm sjötíu prósent. Þessir kínversku bátar, um 800 talsins á síðasta ári, virðast brjóta gegn viðskiptaþvingunum Sameinuðu þjóðanna sem banna veiðar utanaðkomandi aðila á norðurkóreskum miðum. Þvingununum, sem voru settar á árið 2017 sem svar við kjarnorkutilraunum ríkisins, var ætlað að refsa ríkinu með því að banna sölu veiðileyfa. Hundruðum norðurkóreskra fiskibáta hefur skolað á strendur Japans undanfarin ár.Vísir „Þetta er stærsta dæmið um ólöglegar veiðar staks flota í lögsögu annars ríkis,“ segir Jaeyoon Park hjá Global Fishing Watch. Brot á viðskiptaþvingunum Kína er meðlimur öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem skrifaði einróma undir viðskiptaþvinganirnar gegn Norður-Kóreu. Flotinn sem brýtur nú gegn þvingununum samanstendur hins vegar af nærri þriðjungi allra þeirra kínversku skipa sem veiða á fjarlægum miðum, samkvæmt Global Fishing Watch. Þegar niðurstöður rannsóknarinnar voru bornar undir kínverska utanríkisráðuneytið fékkst það svar að Kína hefði staðfastlega staðið við viðskiptabann öryggisráðsins. Kína hefði í þokkabót refsað samviskusamlega fyrir ólöglegar veiðar. Í mars sendu tvö ríki inn nafnlausa kvörtun til Sameinuðu þjóðanna um meint brot Kínverja á þvingununum og létu sönnunargögn fylgja með. Meðal annars gervihnattamyndir af kínverskum skipum við veiðar í norðurkóreskri lögsögu og vitnisburð kínverskra fiskimanna sem sögðust hafa gert kínverskum stjórnvöldum viðvart um áform sín. Miðin á Japanshafi liggja á milli Kóreuskagans, Japans og Rússlands. Hart er barist um miðin og eftirlitið er lítið. Hingað til hefur vera kínverskra báta á svæðinu verið hulin, enda slökkva skipstjórarnir gjarnan á ratsjárvörum. Því eru bátarnir svo gott sem ósýnilegir úr landi, sem er ólöglegt undir flestum kringumstæðum. Global Fishing Watch og aðrir rannsakendur náðu hins vegar að skrá ferðir þessara báta með aðstoð gervihnattatækni. Meðal annars var stuðst við gervihnött sem nemur björt ljós að nóttu til. Margir þessara smokkfisksbáta nýta afar sterk ljós til þess að tæla bráðina nær yfirborði sjávar. Kínverjarnir hafa einnig stuðst við aðferð sem nefnist tvílembingstog og gerir það eftirlitið auðveldara. Ekkjubæir Fjöldi þeirra Norður-Kóreumanna sem hafa horfið úti á hafi á síðustu árum er svo mikill að sumir norðurkóreskir hafnarbæir, til dæmis Chongjin á austurströndinni, eru núna kallaðir „ekkjubæir“. Á síðasta ári einu skolaði fleiri en fimmtíu látnum Norður-Kóreumönnum að ströndum Japans, samkvæmt japönsku strandgæslunni. Þessi fjölgun hinna svokölluðu draugabáta hefur leitt til aukinnar spennu á milli Japans og Norður-Kóreu. Sumir Japanar hafa sett fram kenningar um að njósnarar, þjófar eða jafnvel sýklavopn séu um borð í bátunum. „Ef kóreskt skip hefur villst af leið er það orðið ónýtt þegar því skolar upp á okkar strendur,“ sagði Kazuhiro Araki, framkvæmdastjóri Abduction Research Organization, samtaka sem rannsaka sögu þeirra hundraða Japana sem Norður-Kóreumenn eru sakaðir um að hafa numið á brott á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. „En sum skipin eru heil og mannlaus þegar þau koma að landi. Þá er mögulegt að njósnarar hafi komist hingað til lands.“ Þetta eru flatbytnur, þaktar skeljum og þörungum. Um fjórir til sex metrar að lengd og byggðar fyrir fimm til tíu manna áhöfn. Engin klósett eða rúm eru um borð, einungis kútar með vatni, net og beita, að því er kemur fram í skýrslu japönsku strandgæslunnar. Tættir norðurkóreskir fánar eru á skipinu, sem eru gjarnan merkt ríkisstofnunum eða hernum. Kínverjar hafa sótt verulega inn á mið Norður-Kóreu og hrakið þaðan norðurkóreska fiskibáta á brott.Vísir Öll þau lík sem hafa fundist um borð á bátunum virðast karlkyns. Sum hafa hins vegar verið svo illa farin að erfitt er að skera úr um það. Þá veldur togstreitan á milli Japans og Norður-Kóreu því að erfitt er að fá skýringar þaðan. Sjávarútvegur mikilvægur Norður-Kóreu Kínverjar skrifuðu undir margra milljóna dala samning um veiðirétt við Norður-Kóreu árið 2004. Í kjölfarið fjölgaði kínverskum bátum í norðurkóreskri lögsögu mikið. Alþjóðlegu viðskiptaþvinganirnar sem voru samþykktar árið 2017, vegna eldflauga- og kjarnorkutilrauna Norður-Kóreu, áttu að skera á flæði fjármagns til landsins. Kínverjar, sem hafa lengi verið bandamenn Norður-Kóreu, samþykktu þvinganirnar eftir þrýsting Bandaríkjamanna og í ágúst árið 2017 sagði viðskiptaráðherra Kínverja ríkisstjórnina staðráðna í að framfylgja nýju reglunum. Sjávarfang er enn í sjötta sæti á listanum yfir helstu útflutningsvörur Norður-Kóreu. Kim Jong-un, einræðisherra landsins, hefur lagt áherslu á sjávarútveginn í ræðum sínum nýverið. „Fiskurinn er eins og byssukúlur eða stórskotakupsbúnaður,“ sagði í ritstjórnargrein í Rodong Sinmun, dagblaði Verkamannaflokks Kóreu, árið 2017. „Fiskibátar eru eins og orrustuskip. Þeir verja þjóðina og móðurlandið.“ Í ljósi viðskiptaþvingana Sameinuðu þjóðanna og nú þegar gjaldeyrisforðinn hefur minnkað reynir norðurkóreska ríkisstjórnin að styrkja sjávarútveginn með því að breyta hermönnum í sjómenn og senda þá illa þjálfaða út á hættuleg miðin. Viðskiptaþvinganirnar hafa sömuleiðis gert eldsneytisskortinn í landinu enn verri. Japanskir rannsakendur segja að sumir þeirra norðurkóresku báta sem skolað hefur á land hafi verið eldsneytislausir. Frá því 2013 hefur að minnsta kosti fimmtíu verið bjargað af þessum hrörlegu bátum. Í viðtölum við japönsku lögregluna hafa sjómennirnir lítið annað sagt en að þeir hefðu verið fastir úti á sjó og vildu komast heim til Norður-Kóreu. Krufningar á hinum látnu hafa sýnt að flestir fórust úr hungri, vökvaskorti eða ofkælingu. Norðurkóreskur fyrrverandi sjómaður, sem flúði til Suður-Kóreu árið 2016 og býr nú í Seúl, segir að árið 2013 hafi norðurkóreskir bátar einungis verið um tólf hestöfl og því ekki geta ferðast langt frá landi. „Þrýstingurinn frá ríkisstjórninni er meiri núna og þarna eru 38 hestafla vélar,“ segir flóttamaðurinn sem bað um að nafni hans yrði haldið leyndi til þess að leggja ekki fjölskyldu sína í hættu. „Fólkið er nú orðið örvæntingarfullt og getur farið lengra út á haf.“ Rannsakendur telja þó að þrýstingur stjórnvalda sé ekki eini þátturinn. „Samkeppni við kínverska togara er trúlega að þrýsta norðurkóreskum bátum í burtu og inn í rússneska lögsögu,“ segir Jungsam Lee, en samtökin hans komust að því að hundruð norðurkóreskra báta stunduðu ólöglegar veiðar á rússneskum miðum árið 2018. Árið 2017 kom japanska strandgæslan auga á rúmlega 2.000 norðurkóreska báta sem voru við ólöglegar veiðar við Japan. Í rúmlega 300 tilfellum nýtti strandgæslan vatnsbyssur til þess að hrekja bátana á brott. Stofninn að hverfa Um allan heim hverfa nú margar tegundir fiska og sjávardýra vegna loftslagsbreytinga, ofveiða og ólöglegra veiða iðnaðarflota. Eftir því sem stofnar minnka eykst samkeppnin og átök á milli fiskveiðiþjóða verða algengari. Mikil sjávarfangsríki á borð við Japan og Suður-Kóreu eiga nú í hættu á að verða undir í samkeppni við stækkandi flota frá Taívan, Víetnam og einna helst Kína. Smokkfisksstofninn hefur minnkað um rúm sjötíu prósent undanfarin ár.Vísir Kína, með sína 1,38 milljarða íbúa, er orðið það land sem neytir mests sjávarfangs. Heildarafli Kínverja hefur aukist um rúm tuttugu prósent á síðustu fimm árum. Margir þeirra stofna sem eru næst ströndum Kína hafa horfið vegna ofveiða og því hefur ríkisstjórnin veitt sjómönnum beinan stuðning svo þeir geti siglt um allan heim að leita að nýjum miðum. Kínversk skip veiddu á milli 50 og 70 prósent alls smokkfisks sem veiddist á alþjóðlegu hafsvæði á síðustu árum, samkvæmt mati kínverskra stjórnvalda. Oft veiða þessir bátar ólöglega í lögsögu annarra ríkja, samkvæmt greiningu rannsakenda hjá C4ADS. Á Japanshafi eru svæði þar sem Japan, Rússland og Kóreuríkin tvö geta ekki komið sér saman um hvar mörkin liggja. Áhlaup Kínverja á svæðið hefur aukið á togstreitunna á milli þessarra ríkja. Togstreita og árásargirni Kínversk fiskiskip eru alræmt fyrir árásargirni sína. Þau eru oft búin vopnum og eru þekkt fyrir að sigla á skip samkeppnisaðila eða jafnvel eftirlitsskip. Kínverskir miðlar lýsa þessum átökum við önnur Asíuríki sem eins konar framhaldi af kínversku konungsríkjunum þremur til forna, sem kepptust gjarnan um yfirráð. Spennan á milli Seúl og Peking jókst til muna árið 2016 eftir að kínverskt skip, sem var við ólöglegar veiðar við Suður-Kóreu, sökkti suðurkóreskum strandgæslubát. Sá bátur var í suðurkóreskri lögsögu og var að reyna að stöðva annað kínverskt skip sem var við ólöglegar veiðar. Blaðamennirnir sem komu að þessari grein náðu myndböndum af því þegar tíu kínversk fiskiskip sigldu inn í norðurkóreska lögsögu. Þeir þurftu hins vegar að hverfa af braut eftir að eitt kínversku skipanna reyndi að sigla á bát blaðamannanna. Atvikið átti sér stað um miðja nótt, um hundrað mílur frá landi, og kínversku smokkfisksskipin svöruðu engum skilaboðum. Um átta hundruð kínverskir smokkfiskveiðibátar sóttu inn á mið Norður-Kóreu í fyrra og brutu þar með gegn viðskiptaþvingunum Sameinuðu Þjóðanna.Vísir Á milli 2017 og 2018 veiddu kínverskir bátar, sem voru við ólöglegar veiðar, jafnmikið af smokkfiski og Japan og Suður-Kórea til samans. Um 160 þúsund tonn, 440 milljóna dala virði. Rannsakendur óttast algjört hrun smokkfisksstofnsins, en hann hefur minnkað um allt að 78 prósent í suðurkóreskri og japanskri lögsögu frá árinu 2003. Kínverski flotinn er helsti sökudólugurinn í þessu máli. Með því að veiða á norðurkóresku hafsvæði eru skipin að sópa upp þeim smokkfiski sem er orðinn nógu þroskaður til að hrygna, segir Park, sérfræðingurinn frá Global Fishing Watch. Þar sem kínversk yfirvöld gera upplýsingar um veiðileyfi ekki opinberar er ógerningur að sannreyna að öll kínversku skipin sem veiða við Norður-Kóreu geri það með leyfi stjórnvalda, segja sérfræðingar Global Fishing Watch. Samtökin segja hins vegar víst að skipin séu í raun kínversk. Á meðal þess sem styður þá fullyrðingu eru gögn sem suðurkóreska strandgæslan hefur safnað við eftirlit á skipum sem sigla inn í norðurkóreska lögsögu, gögn sem sýna að kínvesrkur búnaður hefur verið notaður og gervihnattarmyndir sem sýna að skipin höfðu áður veitt á kínverskum miðum, sem skip frá öðrum ríkjum mega ekki veiða á. Yfirgangur á Ulleung „Þegar þau koma hingað þá tröllríða þau öllu,“ segir Kim Byong Su, bæjarstjóri á Ulleung-eyju, um 120 kílómetra austur af Kóreuskaga. Ulleung er agnarsmá eyja en þar er næsta höfn Suður-Kóreumanna við norðurkóresku miðin. Kim segir að kínversku smokkfiskabátarnir hafi tortímt tveimur helstu atvinnuvegum eyjarinnar, ferðaþjónustu og sjávarútvegi. Á Jeodong-markaðnum nærri höfninni má finna smokkfiska í röðum og segja kaupmennirnir að verðið nú sé einungis þriðjungur af því sem var fyrir fimm árum. Flestir þeirra karlmanna yfir fertugu sem búa á eyjunni hafa unnið við að að veiða smokkfisk. Nærri þriðjungur er nú atvinnulaus, vegna hruns stofnsins, að sögn bæjarstjórans. Hvarf smokkfisksins hefur gjörbreytt samfélaginu á Ulleung. Lengst af hafa veitingastaðir eyjarinnar selt þurrkaðan eða hráan smokkfisk í forrétt en slíkt tíðkast varla lengur. Ekki bætir úr skák að kínverski flotinn leitar stundum í skjól í höfninni þegar illa viðrar. Um 200 skip koma gjarnan saman og borgarstjórinn getur ekki vísað þeim frá. „Þeir hella olíu fyrir borð, henda rusli á víð og dreif, háværar rafstöðvar blása reyk yfir eyjuna alla nóttina og akkerin skemma ferskvatnsleiðslur hér,“ segir Kim og bætir við: „Umheimurinn þarf að vita hvað er í gangi hérna.“ Þessi umfjöllun er unnin í samstarfi við Ian Urbina, bandarískan rannsóknarblaðamann, og The Outlaw Ocean Project.