Enska söngkonan Lily Allen og bandaríski leikarinn David Harbour eru gengin í það heilaga.
Frá þessu greindi Allen í Instagram-færslu sem hún deildi í dag. Þar sést parið í sínu fínasta pússi með bros á vör. Á myndinni má einnig sjá leikara í gervi Elvis Prestley, en ekki liggur fyrir hvort leikarinn sá um að gefa hjónin saman eða hvort hann var aðeins viðstaddur til að auka skemmtanagildi athafnarinnar.
Orðrómur hefur verið á kreiki meðal áhangenda stjarnanna um að síðan í maí um að þau væru trúlofuð. Orðrómurinn fór af stað eftir að Allen deildi mynd af sér á Instagram, en glöggir netverjar tóku eftir því að hún skartaði hring á baugfingri vinstri handar.
Harbour, sem er 45 ára, og Allen, sem er tíu árum yngri, hafa verið saman síðan í ágúst á síðasta ári.
Allen er þekkt fyrir slagara á borð við Smile og Fuck You og hefur átt góðu gengi að fagna sem alþjóðleg poppstjarna. Þá er Harbour þekktur leikari og lék meðal annars stórt hlutverk í hinum geysivinsælu vísindaskáldskaparþáttum Stranger Things.