Sport

„Ég varaði hann við því að þetta myndi gerast“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Novak Djokovic er mikill skaphundur inn á tennisvellinum.
Novak Djokovic er mikill skaphundur inn á tennisvellinum. EPA-EFE/KERIM OKTEN

Þýska tennisgoðsögnin Boris Becker segist hafa reynt að vara Novak Djokovic við þegar hann þjálfaði hann á sínum tíma. Becker fór yfir brottrekstur Djokovic í nýjum pistli.

Novak Djokovic bætir ekki við risatitli í safnið á Opna bandaríska mótinu í ár en það var ekki út af því að hann tapaði inn á tennisvellinum. Djokovic var dæmdur úr leik.

Djokovic gerðist sekur um að slá tennisbolta í dómara í svekkelsi í leik sínum á móti Pablo Carreño Busta. Boltinn fór í háls línudómarans Lauru Clark.

Boris Becker þekkir serbneska tenniskappann Novak Djokovic betur en flestir eftir að hafa þjálfað hann frá 2013 til 2014. Hann gerði á þeim tíma athugasemd við þá slæmu hegðun Serbans að vera að slá boltann í pirringskasti.

„Ég óttaðist það að svona myndi gerast hjá Novak,“ skrifaði Boris Becker í pistli sínum hjá Daily Mail.

„Ef þú myndir spyrja David Beckham um hvað væri það versta sem gerðist fyrir hann á ferlinum þá væri svarið eflaust rauða spjaldið á móti Argentínu á HM 1998. Ef Novak Djokovic myndi svara þessari spurningu eftir tíu ár það væri það örugglega brottrekstur hans af Opna bandaríska 2020,“ skrifaði Becker.

„Ég held að niðurstaðan hafi samt verið rétt. Hann var ekki að reyna að meiða neinn en hann missti stjórn á sér og verður því að taka pokann sinn,“ skrifaði Becker.

„Ég varaði hann við því að þetta myndi gerast þegar ég var að þjálfa hann. Ég varaði hann við því að vera alltaf að henda hlutum eða að slá boltann í burtu,“ skrifaði Becker.

„Djokovic er að spila á sama tíma og tennisgoðin Rafael Nadal og Roger Federer. Um leið er einn hans besti kostur hans mesti ókostur. Hann er tilfinningaríkur leikmaður með hugarfar götustráksins og það er sú skapgerð sem hefur hjálpað honum að vinna sautján risatitla,“ skrifaði Becker.

„Ég hélt að það angri hann mest að hann er ekki eins vinsæll og þeir Rafa Nadal og Roger Federer,“ skrifaði Becker.

„Ég kann mjög vel við hann. Hann er eins hógvær náungi og þú finnur í súperstjörnu og er alltaf að hugsa um fólk sem stendur verra en hann. Hann er mjög gáfaður og mjög trúr fjölskyldu sinni og vinum. Ef þú ert í þeim hópi þá gætir þú hringt klukkan þrjú um nótt og hann kæmi til að hjálpa,“ skrifaði Boris Becker meðal annars en það má sjá allan pistilinn hans hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×