Eigandi Utah Royals, knattspyrnufélagsins sem Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er á mála hjá, hefur sett félagið á sölu eftir ásakanir um kynþáttaníð. Viðskiptastjóri þess er farinn í ótímabundið leyfi vegna óviðeigandi hegðunar í garð kvenna.
Dell Loy Hansen er eigandi Utah Royals sem og Real Salt Lake sem leikur í úrvalsdeild karla í Bandaríkjunum. The Athletic hefur fjallað ítarlega um kynþáttaníð hans í kjölfar afar ósmekklegra ummæla í útvarpsþætti í síðustu viku.
Auk Hansen er viðskiptastjórinn Andy Carroll borinn þungum sökum í fréttum tengdum sölu félaganna. Í grein RSL Soapbox segir að Carroll hafi ítrekað gerst sekur um ósæmileg ummæli í garð kvenna. Rebecca Cade, sem starfaði fyrir fyrirtæki Hansens sem fréttaritari, segir Carroll meðal annars hafa rætt fjálglega við aðra karlmenn í fyrirtækinu um útlit hennar, til að mynda brjóst hennar.
Vildi að leikmenn væru í „kynþokkafullum stellingum“
Roscoe Myrick, sem vann sem ljósmyndari fyrir Utah Royals, sagði svo að í fyrra hefði Carroll krafist þess að leikmenn ættu að vera í „kynþokkafullum stellingum“ á myndum sem teknar voru á sérstökum fjölmiðladegi. Því var hafnað af öðru starfsfólki.
Þá vildi Carroll að myndir af Christen Press, Amy Rodriguez og Kelley O‘Hara væru notaðar á auglýsingaskilti og í auglýsingar, þar sem honum þótti þær sætastar í liðinu. Gunnhildur Yrsa og Becky Sauerbrunn, sem voru í stórum hlutverkum í liðinu, væru „of ófríðar“.
Gunnhildur, sem hefur verið leikmaður Utah Royals frá árinu 2018 en er að láni hjá Val síðan í síðasta mánuði, tjáði sig um málið á Twitter í dag. Hún sagði ummæli Carroll viðbjóðsleg.
Theses remarks are disgusting and as someone who was personally named I want to say...Enough. The days where women are judged by their looks are OVER. I won t be silent anymore.
— Gunnhildur Yrsa (@Gunnhildur_Yrsa) September 3, 2020
As @beckysauerbrunn says: our accomplishments are worthy of recognition, in and of themselves. https://t.co/7o0mdouKUQ
Sagði mótmæli leikmanna hnífsstungu í bakið
Hansen lét sín ósmekklegu ummæli falla í síðustu viku þegar rætt var um þá ákvörðun leikmanna Real Salt Lake að spila ekki leik, og taka þannig þátt í mótmælum eftir að lögregla skaut Jacob Blake sjö sinnum í bakið.
„Þetta er sorglegt. Þetta er eins og að einhver stingi mann í bakið og maður er að reyna að losa hnífinn og komast áfram. Þannig líður mér. Þetta er alveg rosaleg vanvirðing,“ sagði Hansen um þá ákvörðun leikmanna að spila ekki.
Í kjölfarið birti The Athletic grein þar sem saga Hansen er rakin og fjallað um rasísk ummæli sem hann mun hafa látið falla í gegnum tíðina, meðal annars gagnvart undirmönnum sínum. MLS-deildin sendi svo frá sér yfirlýsingu þar sem því var lýst yfir að deildin myndi vinna með Hansen að sölu Real Salt Lake.
Að sama skapi vinnur NWSL-deildin nú með Hansen að sölu Utah Royals.
Update on Dell Loy Hansen's involvement with @UtahRoyalsFC: pic.twitter.com/gF9TDEvmjO
— NWSL (@NWSL) August 30, 2020
Fréttin hefur verið uppfærð. Í fyrri útgáfu fréttarinnar sagði að Jacob Blake hafi verið skotinn til bana en það hefur verið leiðrétt.