Íslenski boltinn

Lengjudeildin: Magni með sinn fyrsta sigur og Þórsarar fóru létt með Þróttara

Ísak Hallmundarson skrifar
Magnaðir Magnamenn unnu sinn fyrsta leik í deildinni í dag.
Magnaðir Magnamenn unnu sinn fyrsta leik í deildinni í dag. vísir/ernir

Tveimur síðustu leikjum 12. umferðar Lengjudeildar karla er lokið. Magni frá Grenivík vann fyrsta sigurleik sinn í sumar þegar liðið sótti þrjú stig á Fáskrúðsfjörð. Þór frá Akureyri vann sannfærandi sigur á Þrótti.

Alvaro Montejo kom Þórsurum yfir gegn Þrótturum með marki úr vítaspyrnu eftir innan við 90 sekúndna leik. Staðan versnaði enn frekar fyrir Þrótt á 26. mínútu þegar Daði Bergsson fékk rauða spjaldið og Þróttarar þurftu því að spila manni færri það sem eftir lifði leiks. Staðan í hálfleik 1-0.

Á 46. mínútu kom Sölvi Sverrisson Þór í 2-0 og Alvaro Montejo skoraði annað mark sitt í leiknum og innsiglaði 3-0 sigur Þórs á 57. mínútu. 

Á Fáskrúðsfirði tóku Leiknismenn á móti Magna. Stefán Ómar Magnússon kom heimamönnum í Leikni yfir á 23. mínútu en aðeins fjórum mínútum síðar jafnaði Tómas Örn Arnarson fyrir Magnamenn.  Kairo Edwards-John skoraði úr vítaspyrnu fyrir Magna á 36. mínútu áður en Ásgeir Páll Magnússon hjá Leikni fékk að líta á rauða spjaldið á 40. mínútu. Leiknir fékk víti undir lok fyrri hálfleiks og hefði getað jafnað leikinn en Daniel Garcia Blanco brenndi af vítinu.

Louis Aaron Wardle kom Magna í 3-1 á 80. mínútu og urðu það lokatölur, fyrsti sigur Magnamanna í sumar staðreynd.

Þór er í 5. sæti með 20 stig, Leiknir F. er í 10. sæti með tíu stig, Þróttur í 11. sæti með sjö stig og Magni er í neðsta sætinu með fimm stig eftir leikina í dag. Stöðuna í deildinni má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×