Umfjöllun og viðtöl: KR - ÍA 4-1 | Atli og Pablo komu KR á beinu brautina Sindri Sverrisson skrifar 30. ágúst 2020 19:25 Atli Sigurjónsson skoraði tvö mörk og lagði upp eitt gegn ÍA. vísir/daníel Atli Sigurjónsson og Pablo Punyed skoruðu tvö mörk hvor þegar KR vann ÍA 4-1 í Pepsi Max-deildinni í fótbolta. KR hafði leikið fjóra leiki í röð í deildinni án sigurs en átti góðan leik í dag. KR var mikið betri aðilinn í fyrri hálfleik og skapaði sér aragrúa af færum. Atli kom heimamönnum yfir með gullfallegu skoti utan teigs strax á 4. mínútu, og fyrsta hálftímann sóttu þeir nánast látlaust. Kristján Flóki Finnbogason skoraði mark sem var ranglega dæmt af vegna rangstöðu og hann átti líka skalla í stöng og út. Ísak Snær Þorvaldsson lék sinn fyrsta leik fyrir ÍA, eftir komuna að láni frá Norwich, og þessi líkamlega sterki og stæðilegi leikmaður átti fínan leik sem aftasti miðjumaður. Hann var líka afar nálægt því að jafna metin þegar hann skallaði í slá á 39. mínútu. Í stað þess að ÍA jafnaði metin komst KR í 2-0 því eftir skalla Ísaks geystust Kristinn Jónsson og Atli fram í skyndisókn gegn fáliðaðri vörn ÍA, sem endaði með skalla Atla í stöng og inn eftir sendingu Kristins. ÍA gerði tvöfalda skiptingu í upphafi seinni hálfleiks og annar varamannanna, Jón Gísli Eyland, átti sinn þátt í að ÍA minnkaði muninn strax. Hann átti góða sendingu inn að vítateig þar sem Beitir var kominn langt út, teygði sig og sló boltann sem fór beint á Stefán Teit Þórðarson og hann smellti boltanum inn. Skagamenn fengu að vera meira með boltann en í fyrri hálfleiknum en sköpuðu of lítið af færum, og KR komst svo í 3-1 eftir aðra skyndisókn með skrautlegu marki Pablo Punyed. Hann var kominn eina 15 metra inn á vallarhelming Skagamanna, sem voru allir komnir fram, og setti boltann framhjá Árna Snæ Ólafssyni sem var kominn langt út úr markinu. KR-ingar gáfu fá færi á sér og Pablo innsiglaði svo sigurinn með ágætu skoti utan teigs þegar skammt var eftir. KR komst því upp að hlið Breiðabliks og FH og er með 20 stig, fimm stigum á eftir toppliði Vals þegar liðin hafa leikið jafnmarga leiki. Valur mætir hins vegar HK í kvöld og getur þar aukið forskotið. ÍA gat jafnað KR að stigum en er nú sex stigum á eftir, í 8. sæti. Stefán Teitur Þórðarson skoraði mark ÍA en það var hans sjötta í Pepsi Max-deildinni í sumar.vísir/Daníel Af hverju vann KR? Eftir slaka frammistöðu í undanförnum leikjum var KR-liðið upp á sitt besta í fyrri hálfleik og hin margrómaða samvinna Kristins og Óskars á vinstri kantinum skilaði ótalmörgum færum. Skyndisóknir liðsins voru líka stórhættulegar og eitthvað sem að Skagamenn réðu mjög illa við. Hverjir stóðu upp úr? Kristinn átti risastóran þátt í því hvernig sóknir KR dundu á ÍA, sérstaklega í fyrri hálfleiknum. Atli gerði KR leikinn mun auðveldari með perlumarki sínu snemma leiks – kom liðinu í þá stöðu sem því líður svo ótrúlega vel í – og bætti um betur með skallamarki sínu. Pablo skoraði sömuleiðis tvö góð mörk þrátt fyrir að eiga á löngum köflum í erfiðleikum gegn Ísak Snæ sem var mjög kröftugur og erfiður viðureignar á miðjunni hjá ÍA. Hvað gekk illa? Skagamenn vörðust skyndisóknum KR mjög illa – voru einhverra hluta vegna helmingi lengur að skila sér til baka en bakvörður á fertugsaldri að fara fram. Þeir höfðu sömuleiðis ekki getuna til að opna vörn KR nægilega oft, þó að þeir reyndu ýmislegt. Hvað gerist næst? Nú tekur við hlé hjá liðunum vegna landsleikja. Þau eiga bæði fulltrúa í U21-landsliðinu sem mætir Svíþjóð á Víkingsvelli næsta föstudag; Finn Tómas Pálmason og Stefán Árna Geirsson úr KR og Stefán Teit Þórðarson úr ÍA. KR mætir svo næst Breiðabliki 10. september í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins, tekur á móti Stjörnunni í deildarleik og spilar svo í undankeppni Evrópudeildarinnar 17. september. ÍA sækir HK heim í deildinni 13. september og fær Val í heimsókn fjórum dögum síðar. Jóhannes Karl Guðjónsson horfði upp á sína menn fá á sig fjögur mörk í kvöld.vísir/daníel Jóhannes Karl: Frekar klaufagangur hjá okkur „Við vorum bara gríðarlegir klaufar,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA. „Við gáfum þeim tvö mörk á silfurfati í fyrri hálfleik og það er mjög erfitt að koma til baka eftir það. KR-ingarnir eru náttúrulega góðir, og þéttir og skipulagðir varnarlega, og við áttum í vandræðum með að ógna þeim í fyrri hálfleiknum. En við komum betur inn í seinni hálfleikinn og náðum að ógna þeim aðeins meira, en svo var virkilega sorglegt að þriðja markið þeirra, sem drepur eiginlega leikinn, var virkilega klaufalegt hjá okkar liði. KR-ingar eru með gæði til að refsa fyrir svona mistök,“ sagði Jóhannes Karl. „Það munaði sáralitlu að boltinn færi yfir línuna í fyrri hálfleiknum, við fengum tvö mjög góð færi, en við hefðum líka getað nýtt stöðurnar sem við fengum betur þá. Við vorum grimmari í seinni hálfleiknum og náðum að komast í 2-1, en það var erfitt að koma til baka eftir þetta þriðja mark þeirra,“ sagði Jóhannes Karl, og bætti við: „Það að við fengjum á okkur fjögur mörk fannst mér vera meira klaufagangur hjá okkur, en KR hefur vissulega gæðin til að refsa. Við hefðum átt að geta varist töluvert betur en við gerðum. En það var eitthvað af jákvæðum hlutum í þessum leik sem við tökum með okkur og við munum ekki hætta að spila okkar fótbolta og gefa þessum strákum tækifæri, sem margir hverjir stóðu sig mjög vel í dag. En ég er auðvitað hundóánægður með þessi úrslit.“ Rúnar Kristinsson fagnaði langþráðum sigri eftir dapurt gengi að undanförnu í Pepsi Max-deildinni og skell gegn Celtic í Meistaradeildinni.vísir/getty Rúnar sá nokkuð sem að hefur vantað „Við erum ekki búnir að vinna hérna á heimavelli í talsverðan tíma, sem er óvanalegt miðað við hvernig liðið spilaði í hitteðfyrra og fyrra. Við náðum að rétta aðeins úr kútnum í dag - skoruðum aftur fjögur mörk á heimavelli og löndum hér sætum sigri,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR. Eftir dapurt gengi á undanförnu viðurkenndi Rúnar að það hefði farið um hann í upphafi seinni hálfleiks, þegar ÍA minnkaði muninn. „Það gerði það. Þegar þú ert búinn að vera í vandræðum í mörgum leikjum, eins og undanfarnar vikur hjá okkur, þá er svo lítið sem þarf að gerast til að menn missi trúna. Við sköpuðum mikið sjálfstraust með frábæru spili í fyrri hálfleik en svo fáum við á okkur eitt mark í andlitið og þá munar bara einu marki. Þetta er svo fljótt að breytast í fótbolta og leikurinn gat snúist hratt við,“ sagði Rúnar, og bætti við: „Skagamenn voru öflugir í seinni hálfleik, héldu boltanum og við leyfðum þeim aðeins að hafa hann, duttum aðeins niður, en sem betur fer héldum við haus og skoruðum svo úr skyndisóknum. Ég sá leikgleði og vilja til að taka aukametra, sem hefur aðeins vantað. Við getum gert betur en þetta en fengum þrjú stig og fjögur mörk.“ Rúnar var spurður sérstaklega út í Atla Sigurjónsson sem kom KR á bragðið í dag með frábæru marki og skoraði tvö mörk annan leikinn í röð: „Atli er búinn að vera frábær. Hann er búinn að vera hjá KR í mörg ár, tók smá hliðarskref á einhverjum tímapunkti til að fá fleiri leiki, en ég er virkilega ánægður með Atla. Hann er frábær leikmaður, hefur frábæra eiginlega og mikla skot- og sendingatækni. Hann hefur allt, og þetta er það sem við viljum sjá frá honum. Tvö mörk núna og tvö gegn Val, vonandi heldur hann svona áfram,“ sagði Rúnar sem horfir áfram til þess að verja Íslandsmeistaratitilinn eftir sigurinn í kvöld. Pepsi Max-deild karla KR ÍA
Atli Sigurjónsson og Pablo Punyed skoruðu tvö mörk hvor þegar KR vann ÍA 4-1 í Pepsi Max-deildinni í fótbolta. KR hafði leikið fjóra leiki í röð í deildinni án sigurs en átti góðan leik í dag. KR var mikið betri aðilinn í fyrri hálfleik og skapaði sér aragrúa af færum. Atli kom heimamönnum yfir með gullfallegu skoti utan teigs strax á 4. mínútu, og fyrsta hálftímann sóttu þeir nánast látlaust. Kristján Flóki Finnbogason skoraði mark sem var ranglega dæmt af vegna rangstöðu og hann átti líka skalla í stöng og út. Ísak Snær Þorvaldsson lék sinn fyrsta leik fyrir ÍA, eftir komuna að láni frá Norwich, og þessi líkamlega sterki og stæðilegi leikmaður átti fínan leik sem aftasti miðjumaður. Hann var líka afar nálægt því að jafna metin þegar hann skallaði í slá á 39. mínútu. Í stað þess að ÍA jafnaði metin komst KR í 2-0 því eftir skalla Ísaks geystust Kristinn Jónsson og Atli fram í skyndisókn gegn fáliðaðri vörn ÍA, sem endaði með skalla Atla í stöng og inn eftir sendingu Kristins. ÍA gerði tvöfalda skiptingu í upphafi seinni hálfleiks og annar varamannanna, Jón Gísli Eyland, átti sinn þátt í að ÍA minnkaði muninn strax. Hann átti góða sendingu inn að vítateig þar sem Beitir var kominn langt út, teygði sig og sló boltann sem fór beint á Stefán Teit Þórðarson og hann smellti boltanum inn. Skagamenn fengu að vera meira með boltann en í fyrri hálfleiknum en sköpuðu of lítið af færum, og KR komst svo í 3-1 eftir aðra skyndisókn með skrautlegu marki Pablo Punyed. Hann var kominn eina 15 metra inn á vallarhelming Skagamanna, sem voru allir komnir fram, og setti boltann framhjá Árna Snæ Ólafssyni sem var kominn langt út úr markinu. KR-ingar gáfu fá færi á sér og Pablo innsiglaði svo sigurinn með ágætu skoti utan teigs þegar skammt var eftir. KR komst því upp að hlið Breiðabliks og FH og er með 20 stig, fimm stigum á eftir toppliði Vals þegar liðin hafa leikið jafnmarga leiki. Valur mætir hins vegar HK í kvöld og getur þar aukið forskotið. ÍA gat jafnað KR að stigum en er nú sex stigum á eftir, í 8. sæti. Stefán Teitur Þórðarson skoraði mark ÍA en það var hans sjötta í Pepsi Max-deildinni í sumar.vísir/Daníel Af hverju vann KR? Eftir slaka frammistöðu í undanförnum leikjum var KR-liðið upp á sitt besta í fyrri hálfleik og hin margrómaða samvinna Kristins og Óskars á vinstri kantinum skilaði ótalmörgum færum. Skyndisóknir liðsins voru líka stórhættulegar og eitthvað sem að Skagamenn réðu mjög illa við. Hverjir stóðu upp úr? Kristinn átti risastóran þátt í því hvernig sóknir KR dundu á ÍA, sérstaklega í fyrri hálfleiknum. Atli gerði KR leikinn mun auðveldari með perlumarki sínu snemma leiks – kom liðinu í þá stöðu sem því líður svo ótrúlega vel í – og bætti um betur með skallamarki sínu. Pablo skoraði sömuleiðis tvö góð mörk þrátt fyrir að eiga á löngum köflum í erfiðleikum gegn Ísak Snæ sem var mjög kröftugur og erfiður viðureignar á miðjunni hjá ÍA. Hvað gekk illa? Skagamenn vörðust skyndisóknum KR mjög illa – voru einhverra hluta vegna helmingi lengur að skila sér til baka en bakvörður á fertugsaldri að fara fram. Þeir höfðu sömuleiðis ekki getuna til að opna vörn KR nægilega oft, þó að þeir reyndu ýmislegt. Hvað gerist næst? Nú tekur við hlé hjá liðunum vegna landsleikja. Þau eiga bæði fulltrúa í U21-landsliðinu sem mætir Svíþjóð á Víkingsvelli næsta föstudag; Finn Tómas Pálmason og Stefán Árna Geirsson úr KR og Stefán Teit Þórðarson úr ÍA. KR mætir svo næst Breiðabliki 10. september í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins, tekur á móti Stjörnunni í deildarleik og spilar svo í undankeppni Evrópudeildarinnar 17. september. ÍA sækir HK heim í deildinni 13. september og fær Val í heimsókn fjórum dögum síðar. Jóhannes Karl Guðjónsson horfði upp á sína menn fá á sig fjögur mörk í kvöld.vísir/daníel Jóhannes Karl: Frekar klaufagangur hjá okkur „Við vorum bara gríðarlegir klaufar,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA. „Við gáfum þeim tvö mörk á silfurfati í fyrri hálfleik og það er mjög erfitt að koma til baka eftir það. KR-ingarnir eru náttúrulega góðir, og þéttir og skipulagðir varnarlega, og við áttum í vandræðum með að ógna þeim í fyrri hálfleiknum. En við komum betur inn í seinni hálfleikinn og náðum að ógna þeim aðeins meira, en svo var virkilega sorglegt að þriðja markið þeirra, sem drepur eiginlega leikinn, var virkilega klaufalegt hjá okkar liði. KR-ingar eru með gæði til að refsa fyrir svona mistök,“ sagði Jóhannes Karl. „Það munaði sáralitlu að boltinn færi yfir línuna í fyrri hálfleiknum, við fengum tvö mjög góð færi, en við hefðum líka getað nýtt stöðurnar sem við fengum betur þá. Við vorum grimmari í seinni hálfleiknum og náðum að komast í 2-1, en það var erfitt að koma til baka eftir þetta þriðja mark þeirra,“ sagði Jóhannes Karl, og bætti við: „Það að við fengjum á okkur fjögur mörk fannst mér vera meira klaufagangur hjá okkur, en KR hefur vissulega gæðin til að refsa. Við hefðum átt að geta varist töluvert betur en við gerðum. En það var eitthvað af jákvæðum hlutum í þessum leik sem við tökum með okkur og við munum ekki hætta að spila okkar fótbolta og gefa þessum strákum tækifæri, sem margir hverjir stóðu sig mjög vel í dag. En ég er auðvitað hundóánægður með þessi úrslit.“ Rúnar Kristinsson fagnaði langþráðum sigri eftir dapurt gengi að undanförnu í Pepsi Max-deildinni og skell gegn Celtic í Meistaradeildinni.vísir/getty Rúnar sá nokkuð sem að hefur vantað „Við erum ekki búnir að vinna hérna á heimavelli í talsverðan tíma, sem er óvanalegt miðað við hvernig liðið spilaði í hitteðfyrra og fyrra. Við náðum að rétta aðeins úr kútnum í dag - skoruðum aftur fjögur mörk á heimavelli og löndum hér sætum sigri,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR. Eftir dapurt gengi á undanförnu viðurkenndi Rúnar að það hefði farið um hann í upphafi seinni hálfleiks, þegar ÍA minnkaði muninn. „Það gerði það. Þegar þú ert búinn að vera í vandræðum í mörgum leikjum, eins og undanfarnar vikur hjá okkur, þá er svo lítið sem þarf að gerast til að menn missi trúna. Við sköpuðum mikið sjálfstraust með frábæru spili í fyrri hálfleik en svo fáum við á okkur eitt mark í andlitið og þá munar bara einu marki. Þetta er svo fljótt að breytast í fótbolta og leikurinn gat snúist hratt við,“ sagði Rúnar, og bætti við: „Skagamenn voru öflugir í seinni hálfleik, héldu boltanum og við leyfðum þeim aðeins að hafa hann, duttum aðeins niður, en sem betur fer héldum við haus og skoruðum svo úr skyndisóknum. Ég sá leikgleði og vilja til að taka aukametra, sem hefur aðeins vantað. Við getum gert betur en þetta en fengum þrjú stig og fjögur mörk.“ Rúnar var spurður sérstaklega út í Atla Sigurjónsson sem kom KR á bragðið í dag með frábæru marki og skoraði tvö mörk annan leikinn í röð: „Atli er búinn að vera frábær. Hann er búinn að vera hjá KR í mörg ár, tók smá hliðarskref á einhverjum tímapunkti til að fá fleiri leiki, en ég er virkilega ánægður með Atla. Hann er frábær leikmaður, hefur frábæra eiginlega og mikla skot- og sendingatækni. Hann hefur allt, og þetta er það sem við viljum sjá frá honum. Tvö mörk núna og tvö gegn Val, vonandi heldur hann svona áfram,“ sagði Rúnar sem horfir áfram til þess að verja Íslandsmeistaratitilinn eftir sigurinn í kvöld.
Umfjöllun: Egyptaland - Ísland 24-27 | Annar frábær sigur og átta liða úrslit í sjónmáli Handbolti
Umfjöllun: Egyptaland - Ísland 24-27 | Annar frábær sigur og átta liða úrslit í sjónmáli Handbolti