Umfjöllun og viðtöl: Sel­foss - FH 1-0 | Bikar­meistararnir mörðu botnliðið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Selfoss vann frækinn sigur á Breiðabliki í síðustu umferð.
Selfoss vann frækinn sigur á Breiðabliki í síðustu umferð. VÍSIR/VILHELM

Selfoss vann í dag góðan 1-0 sigur á FH á Jáverk-vellinum á Selfossi í dag, en það var Tiffany McCarty sem skoraði fyrsta og eina mark leiksins eftir aukaspyrnu Önnu Maríu Friðgeirsdóttur í fyrri hálfleik. Selfoss færist allavega tímabundið í þriðja sæti, en FH situr enn á botni deildarinnar.

Fyrri hálfleikur einkenndist af miklu miðjumoði og erfitt er að segja að þetta hafi verið fallegasti hálfleikur af fótbolta sem ég hef séð. FH stelpur voru þó hættulegri aðilinn fyrstu 20 mínútur leiksins og áttutvo ágætisfæri, annað varði Kaylan í markinu og hinu var mokað af línunni eftir hættulega fyrirgjöf.

Selfoss var svo sterkari aðilinn seinni hluta fyrri hálfleiks, þó að lítið hafi verið um færi. Selfoss átti mögulega að fá vítaspyrnu á 25.mínútu þegar virtist vera brotið á Hólmfríði innan teigs, en dómarinn mat það svo að varnarmaður FH hafi tekið boltann og hornspyrna dæmd. Það var svo á 35.mínútu sem að Selfoss tók aukaspyrnu þar sem Anna María lyfti boltanum inná teig og eftir tvo til þrjá skalla upp í loftið barst boltinn á Tiffany sem kláraði færið vel. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik og staðan því 1-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Seinni hálfleikurinn var jafn bragðdaufur og sá fyrri. Lítið var um færi og hvorugt liðið gat haldið boltanum nógu lengi til að skapa sér mikið. Nokkur hálffæri voru í seinni hálfleiknum en sjaldan hafði maður trú á því að boltinn myndi enda í netinu. Tiffany átt fína fyrirgjöf á 54.mínútu sem Hólmfríður Magnúsdóttir náði ekki að komast almennilega í og Telma átti í litlum vandræðum með það í markinu. Hættulegasta færi hálfleiksins átti Hólmfríður, þegar hún var sloppin í gegn eftir flotta stungusendingu, þar sem hún reyndi að leika á Telmu í markinu, en Telma sá við henni. Líklegasta tilraun FH kom undir lok leiksins þegar aukaspyrna Ingibjargar Rúnar hafnaði í þverslánni. Fleiri urðu færin ekki og Selfoss tók stigin þrjú.

Af hverju vann Selfoss?

Í mjög bragðdaufum leik sem bauð ekki upp á mörg færi var Selfoss heilt yfir sterkari aðilinn. Þó að FH hefi fengið nokkur færi þá var það Selfoss sem stjórnaði leiknum stærstan hluta. Þó að ekki sé hægt að tala um algjöra yfirburði Selfossliðsins er 1-0 sigur þeirra sanngjörn úrslit.

Hverjar stóðu upp úr?

Það er erfitt að tala um að einhver standi upp úr í leik sem þessum, en ef ég þyrfti að velja þá myndi ég segja að Clara, Anna María og Dagný Brynjarsdóttir hafi verið sterkustu leikmenn Selfossliðsins í dag. Þessar þrjár skiluðu ágætis dagsverki og voru yfirleitt sjáanlegar þegar hætta skapaðist við mark FH.

Í liði FH var það vinstri vængurinn sem var yfirleitt að verki þegar FH náði að skapa hættu á vallarhelmingi Selfoss. Erna Guðrún og Madison Santana Gonzales áttu fínan leik og geta gengið sáttar frá sínu dagsverki. Einnig átti Telma ágætis dag í rammanum.

Hvað gekk illa?

Báðum liðum gekk illa að halda boltanum og skapa sér færi. Leikurinn fór að mestu fram á miðjum vellinum þar sem að liðin skiptust á að reyna að tengja sendingar liðsfélaga á milli, en það gekk oft á tíðum mjög brösulega.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga leik í bikar á fimmtudaginn, Selfoss gegn Val á heimavelli og FH fær KR í heimsókn. Næstu leikir í deild eru svo þrem dögum seinna þegar að Selfoss fær Stjörnuna á Jáverk-völlinn og KR heimsækir FH í annað sinn.

Alfreð: Þetta var ekki fallegt

„Ég er bara ótrúlega ánægður með góðan sigur á móti sterku liði,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss eftir sigurinn í dag.

Alfreð hefði þó viljað sjá meira frá sínum stelpum í dag. „Ég veit ekki alveg hvers er ætlast af okkur, þetta var bara einn af þeim dögum sem gekk lítið að halda boltanum og við vorum bara ekki nógu góðar fótboltalega séð,“ sagði Alfreð. „Við þurftum bara að fara í eljusemina og dugnaðinn og vinna fyrir hlutunum. Þetta var ekki fallegt en þetta var því sætara.“

Það er þétt dagskrá framundan hjá Selfossliðinu, en Alfreð segir að liðið sitt sé klárt í það verkefni. „Við erum að fara að spila þriðja, sjötta, níunda og tólfta, það er þétt prógramm og við þurfum bara að taka góða endurheimt og vera klárar. Það er bikarleikur á fimmtudaginn en aftur á móti erum við bara ánægðar að hafa fengið þrjú stig á móti sterku og vel skipulögðu liði FH.“

Alfreð endaði svo á að minnast á að það væri gott að fá nokkra áhorfendur aftur á völlinn. „Það er bara yndislegt, yndislegt að fá Möllu á trommurnar og allir kátir.“

Árni: Þetta var bara svona næstum því

„Þetta eru klárlega vonbrigði, við vorum töluvert sterkari fyrsta hálftíman þangað til að þær skora og eftir það var þetta bara barningur. Við hefðum getað skorað í lokin, áttum sláarskot og vissulega fengu þær líka færi en þetta eru bara vonbrigði,“ sagði Árni Freyr Guðnason, þjálfari FH eftir tapið í dag.

Árni segir að hann hefði viljað sjá sínar stelpur nýta sér fyrsta hálftíman þegar þær voru sterkari aðilinn. „Mér fannst við fá nægilega góð færi til þess að skora, fengum góð skot frá teignum og margar góðar fyrirgjafir þegar Madison var búin að sóla bakvörðinn nokkrum sinnum og koma boltanum fyrir en þetta var bara svona næstum því.“

Varðandi komandi prógramm segir Árni að sínar stelpur séu tilbúnar í þétta dagskrá. „Já, klárlega. Það er bikarleikur á fimmtudaginn á móti KR og svo aftur KR á sunnudaginn og þær eru búnar að vera í fjórða skipti í skemmtilegu fríi þannig að þær koma líklega brjálaðar til leiks og við þurfum bara að vera klárar.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira