Tæplega 2400 hlauparar höfðu safnað ríflega 60 milljónum um klukkan tvö í dag í hlaupaátaki Íslandsbanka. Verkefnastjóri menningarnætur hvetur fólk til að gera eitthvað menningartengt í dag til að þrátt fyrir að hátíðin hafi verið blásin af vegna kórónuveirufaraldursins.
Þetta er í fyrsta skipti sem Menningarnótt, afmælishátíð Reykjavíkurborgar er alfarið blásin af en fyrsta hátíðin var haldin árið 1996. Guðmundur Birgir Halldórsson verkefnastjóri Menningarnætur segir að strax í vor hafi verið ljóst að hátíðin yrði með öðru sniði en þegar önnur bylgja kórónuveirufaraldursins skall á hafi verið alfarið ákveðið að blása hátíðina af.
„Manni finnst þetta mjög leiðinlegt það er náttúrulega æðislegt veður og hefði verið frábært að halda hátíðina í venjulegu árferði. Ég vona bara að veðrið verði svona gott á næsta ári. Mig langar að hvetja fólk til að gera eitthvað menningarlegt, lesa ljóð eða bók eða raula lítinn lagstúf til að halda upp á daginn.“
„Ég hvet fólk í hjarta sínu til að upplifa eitthvað menningartengt en ekki safnast saman.“
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka er ekki haldið í ár en hins vegar gátu hlauparar skráð sig á vefsíðuna hlaupastyrkur.is og höfðu um 2400 manns skráð sig þar og safnað um 60 milljónum um tvö leitið.
Frímann Ari Ferdinandsson er framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur sem heldur utan um hlaupið.
„Í staðinn ætlum við að vera með uppákomu sem hefst í til að hvetja fólk með uppákomu til að hlaupa til góðra málefna. Klukkan 14 ætlar Steindi að hlaupa 10 kílómetra og fólk getur hlaupið með honum kílómetra í senn. Þá er fólk einnig að hlaupa undir formerkinu Mitt hlaup,“ segir Frímann.