Dow Jones vísitalan hrundi um 7,8% á mörkuðum í dag en um er að ræða mestu lækkun hennar frá efnahagshruninu árið 2008. Lækkun vísitölunnar er rakin til hrapandi olíuverðs og ótta við áhrif kórónuveirunnar á heimsbyggðina. AP greinir frá.
Olíuverð hefur lækkað um nærri 25% á heimsvísu eftir að Sádí Arabar hófu verðstríð til að þvinga Rússa til að taka þátt í aðgerðum samtaka olíuútflutningsríkja, OPEC, um að halda uppi verði á olíu þrátt fyrir minnkandi eftirspurn vegna kórónuveirunnar.
Öll viðskipti á bandarískum mörkuðum voru stöðvuð sjálfkrafa í fimmtán mínútur, skömmu eftir opnun þeirra í morgun. Þá höfðu vísitölur lækkað hratt en við slíkar aðstæður eru viðskipti sjálfkrafa stöðvuð.
Hlutabréfamarkaði í Evrópu og í Japan höfðu þá einnig fundið fyrir áhrifum lækkunar olíuverðs og ótta við kórónuveiruna. Verðbréf höfðu lækkað verulega í Evrópu og hafði viðlíka lækkun ekki sést frá árinu 2008.

