Þægilegt hjá Bayern sem eru komnir í úrslit

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bayern fór nokkuð auðveldlega í gegnum Lyon í kvöld.
Bayern fór nokkuð auðveldlega í gegnum Lyon í kvöld. M. Donato/Getty Images

Bayern Munich eru komnir í úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir einkar þægilegan 3-0 sigur á Lyon í kvöld. Er þetta í 11. sinn sem Bayern kemst í úrslit Meistaradeildar Evrópu. Jafna þeir þar með AC Milan en aðeins Real Madrid hefur komist í fleiri úrslitaleiki eða 16 talsins.

Bæjarar voru fyrir fram taldir líklegri í leik kvöldsins en Lyon hefur komið öllum á óvart með því að slá bæði Juventus sem og Manchester City út úr Meistaradeildinni.

Það kom á daginn að Lyon er með sprækt lið en liðið fékk tvö mjög góð færi í upphafi leiks. Það fyrra fékk Memphis Depay strax á fjórðu mínútu leiksins. Hann slapp þá í gegnum vörn Bayern eftir góða sendingu af miðju vallarins.

Memphis tók boltann með sér og reyndi að fara fram hjá Manuel Neuer, þýska markverði Bayern, en markvörðurinn stóð vaktina vel og náði að þrengja skotvinkil Memphis nægilega mikið til þess að skot hans endaði í hliðarnetinu.

Lyon fékk svo enn betra færi á 16. mínútu þegar Karl Toko Ekambi átti frábæran sprett inn í teig en skot hans endaði í stönginni. Strax í næstu sókn kom Serge Gnabry Þýskalandsmeisturunum yfir með frábæru marki.

Hann keyrði inn á völlinn af hægri vængnum og þrumaði knettinum upp í samskeytin með vinstri fæti. Frábært mark í alla staði og mætti halda að Gnabry hafi fylgst með Arjen Robben undanfarin ár en sá skoraði þó nokkur mörk eins og fyrra mark Gnabry í kvöld.

Staðan því 1-0 Bayern í vil eftir 17. mínútna leik og létu þeir kné fylgja kviði.

Boltinn söng í netinu eftir skot Gnabry á 17. mínútu.M. Donato/Getty Images

Gnabry var næstum búinn að skora annað mark sitt á 25. mínútu er hann átit gott skot að marki en Anthony Lopes í marki Lyon varði vel. Það var svo sjö mínútum síðar sem Gnabry tvöfoldaði forystu Bæjara.

Hann óð sjálfur með boltann upp að vítateig Lyon, gaf út til vinstri á Ivan Perisic sem átti fína fyrirgjöf á hinn magnaða Robert Lewandowski. Ótrúlegt en satt þó brást honum bogalistin en skot hans endaði í Lopes. Þaðan hrökk boltinn fyrir fætur Gnabry sem skoraði af öryggi.

Staðan orðin 2-0 og ljóst að brekkan var orðin brött hjá Lyon. Staðan var enn 2-0 þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks. Í þeim síðari var í rauninni aðeins eitt lið á vellinum.

Perisic fékk dauðafæri strax í upphafi síðari hálfleiks eftir frábæra sendingu Alphonso Davies en enn og aftur varði Lopes vel.

Aftur fengu Frakkarnir – eða franska félagið – tvö færi með skömmu millibili. Miðvörðurinn Marcelo skallaði hornspyrnu Memphis beint í lúkurnar á Neuer. Hefði hann átt að gera betur en enginn varnarmaður Bayern var í Marcelo þegar boltinn small á enni hans.

Skömmu síðar fékk Ekambi sitt annað færi í leiknum. Houssem Aouar átti þá frábæra sendingu þvert fyrir markið en Neuer varði meistaralega með hægri fæti.

Neuer átti frábæran leik í marki Bayern í kvöld.Julian Finney/Getty Images

Aftur kom Philippe Coutinho – lánsmaður frá Barcelona – inn í lið Bayern og líkt í 8-2 sigrinum gegn Börsungum þá kom hann boltanum yfir marklínuna. Markið hins vegar dæmt af vegna rangstöðu.

Lewandowski bætti svo upp fyrir klúðrið í fyrri hálfleik þegar hann fullkomnaði 3-0 sigur Bæjara eftir góða sendingu Joshua Kimmich. Var þetta 55. mark Pólverjans á leiktíðinni, þar af hafa 15 komið í Meistaradeildinni.

Þá var þetta níundi Meistaradeildarleikurinn í röð sem hann skorar í.

Lokatölur – líkt og í sigri PSG í gær – því 3-0 og ljóst að Bayern mætir franska stórliðinu PSG í úrslitum Meistaradeildarinnar á sunnudaginn kemur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira