Innlent

Ás­laug er fyrst dauf­blindra Ís­lendinga til að ljúka há­­skóla­­námi

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Áslaug Ýr Hjartardóttir er ánægð með þá þjónustu sem hún fékk í Háskóla Íslands.
Áslaug Ýr Hjartardóttir er ánægð með þá þjónustu sem hún fékk í Háskóla Íslands. BALDUR HRAFNKELL JÓNSSON

Fyrsti daufblindi einstaklingurinn til að ljúka háskólanámi á Íslandi útskrifaðist í dag með BS gráðu í viðskiptafræði. Draumurinn er að starfa sem bókaútgefandi eða rithöfundur en áður en haldið er út á vinnumarkaðinn ætlar hún í frekara háskólanám.

Um 400 kandídatar brautskráðust frá Háskóla Íslands í dag. Þar á meðal hin 23 ára Áslaug Ýr Hjartardóttir sem útskrifaðist sem viðskiptafræðingur en hún er fyrsti daufblindi einstaklingurinn til að ljúka háskólanámi hér á landi. Daufblindur er einstaklingur sem er mjög skertur á sjón og heyrn.

Áslaug segist virkilega ánægð með þá þjónustu sem hún fékk hjá háskólanum en skólinn útvegaði henni meðal annars túlk í tímum auk dæmatímakennara þegar þörf var á frekari aðstoð. Móðir Áslaugar segir að í tilviki dóttur hennar hafi skólinn uppfyllt að fullu ákvæði í samningi sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er snýr að menntun.

„Ég er mjög þakklát fyrir allt starfsfólkið í háskólanum og þjónustuna sem ég fékk,“ segir Áslaug Ýr, viðskiptafræðingur.

Áslaug ætlar ekki að láta viðskiptafræðigráðuna duga en hún er á leið í frekara háskólanám.

„Ég er að byrja í bókmenntafræði. Áður en ég byrjaði í háskólanum ákvað ég að fara í viðskiptafræði, svo bókmenntafræði og svo ákveða hvað ég ætla að gera í lífinu,“ segir Áslaug.

Ert þú búin að ákveða hvað þú ætlar að gera?

„Kannski vera bókaútgefandi eða rithöfundur. Kannski enda ég á markaðsskrifstofu,“ segir Áslaug.

Hún segir félagslífið það skemmtilegasta við háskólann, en Áslaug tók virkan þátt í nemendafélaginu auk þess sem hún bauð sig fram til Stúdentaráðs.

Hún segir daginn í dag gleðidag.

„Ég ætla að útskrifast úr viðskiptafræði svo ætla ég að eyða deginum með fjölskyldunni og fagna áfanganum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×