Sigurbjartur Sigurjónsson í Mosfellsbæ hýsti Patrick Mahomes, nýbakaðan Super Bowl meistara, í Mosfellsbæ fyrir þremur árum síðan.
Kærasta Mahomes, sem leikur með Kansas City Chiefs, lék með Aftureldingu í Inkasso-deild kvenna sumarið 2017. Mahomes bjó þar af leiðandi um tíma á Íslandi.
Hann fór á kostum í nótt en Sigurbjartur ræddi komu Mahomes til landsins í Reykjavík síðdegis í dag. Sigurbjartur er formaður meistaraflokksráð kvenna hjá Aftureldingu.
„Þegar ég er að sækja leikmanninn á flugvellinum birtist þessi stóri og stæðilegi maður. Djúpraddaður og kynnir sig. Við bjuggumst ekki við honum með svo þetta var skemmtileg viðbót,“ sagði Sigurbjartur og hélt áfram:
„Það reyndist erfitt að hýsa hann. Hann var of stór fyrir rúmin svo hann þurfti að sofa í sófanum.“
Sigurbjartur kannaðist ekki við Mahomes úr NFL-boltanum er unnusta hans lék hér á landi.
„Í rauninni ekki. Hann er að koma úr háskólaboltanum og spilaði með Texas Tech. Hann var nýbúinn að vera valinn í nýliðavalinu til Kansans Chiefs. Ég hélt að þetta væri ungur strákur sem myndi ekkert spila mikið á næstunni en sagan er önnur.“
Mosfellingurinn bætti við að það hafi margt vatn runnið til sjávar síðan þau bjuggu hér á landi sumarið 2017.
„Hann ferðast nú í einkaflugvél og það er því aðeins öðruvísi en þegar hann var hér. Þá fékk hann lánaðan bíl til að komast á milli staða. Þetta er búið að breytast ansi mikið á þremur árum.“
Allt viðtalið má heyra hér að ofan.
