Atvinnuleysi á fjórða ársfjórðungi 2019 var 3,3 prósent. Að meðaltali töldust 6800 manns atvinnulausir á tímabilinu, að því er fram kemur í nýjum tölum Hagstofunnar. Til samanburðar voru um 4.900 manns atvinnulausir á fjórða ársfjórðungi 2018 og jókst atvinnuleysi um 0,9 prósentustig á tímabilinu.
Á fjórða ársfjórðungi 2019 voru jafnframt um 2.500 störf laus á íslenskum vinnumarkaði samkvæmt starfaskráningu Hagstofunnar eða um 1,1 prósent starfa, samanber áður útgefnar tölur.

Af þeim sem voru atvinnulausir á fjórða ársfjórðungi 2019 höfðu að jafnaði um 3.600 manns verið atvinnulausir í tvo mánuði eða skemur eða 52,7 prósent atvinnulausra.
Til samanburðar höfðu um 3.500 verið atvinnulausir í tvo mánuði eða skemur á sama tíma 2018, eða 48,3 prósent.
Um 700 manns höfðu verið atvinnulausir til langs tíma á fjórða ársfjórðungi 2019 eða 10,5 prósent atvinnulausra. Til þeirra teljast þeir sem hafa verið atvinnulausir í tólf mánuði eða lengur.
Til samanburðar voru um 500 manns langtímaatvinnulausir á fjórða ársfjórðungi 2018 eða 7,5 prósent atvinnulausra.