Sport

Kenin endaði draum heimastúlkunnar á Opna ástralska

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sofia Kenin fagnar sigri í nótt.
Sofia Kenin fagnar sigri í nótt. Getty/Quinn Rooney

21 árs gömul bandarísk tenniskona er komin alla leið í úrslitin á opna ástralska risamótinu í tennis en Sofia Kenin vann heimakonuna Ashleigh Barty í undanúrslitunum í nótt.

Sofia Kenin vann Ashleigh Barty í tveimur settum eða 7-6 (8-6) og 7-5 en þær þurftu að spila leikinn í miklum hita.





Kenin mætir annaðhvort Simona Halep eða Garbine Muguruza í úrslitaleiknum.

Ashleigh Barty var að reyna að verða fyrsta ástralska konan í 40 ár til að komast í úrslit á heimavelli.

„Ég er orðlaus. Ég trúi þessu varla. Ég hef látið mig dreyma um þetta síðan að ég var fimm ára gömul. Ég hef lagt svo mikið á mig til að komast hingað,“ sagði Sofia Kenin eftir leikinn. Um leið og sigurinn var í höfn þá sleppti hún spaðanum og tók um andlit sitt.



Hún er fyrsta bandaríska tenniskonan, fyrir utan Williams systurnar, sem kemst í úrslitaleikinn á Opna ástralska mótinu síðan  Lindsay Davenport náði því árið 2005. Þetta er fyrsti úrslitaleikur Sofiu Kenin á risamóti.  

Væntingarnar og spenningurinn í Ástralíu vegna möguleikans á að Ashleigh Barty spilaði til úrslita á heimavelli hafði greinilega sín áhrif á Ashleigh Barty. Hún sagði svo ekki vera en það var samt frekar augljóst á leik hennar. Hún leit út fyrir að vera taugaóstyrk og óþolinmóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×