Reikna má með að það verði töluverðar tafir á öllum póstsendingum til og frá Kína á næstu vikum. Mörg flugfélög hafa aflýst ferðum til Kína sökum Wuhan-veirunnar sem nú herjar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Póstinum. Haft er eftir Sesselíu Birgisdóttur, framkvæmdastjóra þjónustu- og markaðssviðs Póstsins, að það sé mikið óvissuástand sem ríki varðandi sendingar til og frá Kína. Samgöngur hafi minnkað mjög mikið og líkur séu á að þær minnki jafnvel enn meira á næstu dögum.
„Við getum í raun ekki gert annað en beðið en það er engin leið að vita hvað þetta ástand mun vara lengi,“ er haft eftir Sesselíu.