Stjórn Ríkisútvarpsins ohf. hefur ákveðið hver verður næsti útvarpsstjóri. Þetta var ákveðið á fundi í gærkvöldi. Nokkur einhugur var í stjórninni með valið, sem að endingu snerist um fjóra umsækjendur, samkvæmt heimildum Vísis.Einn stjórnarmeðlima greiddi þó ekki atkvæði með þeim sem fyrir valinu varð.
Að loknu umsóknarferlinu stóðu fjórir umsækjendur eftir sem uppfylltu skilyrði sem sett voru fram í umsókn og stóðu sig vel í viðtölum. Samkvæmt heimildum Vísis er næsti útvarpsstjóri nú að ganga frá lausum endum í sinni vinnu, tilkynna samstarfsfólki sínu um að hann sé að sigla á önnur mið.
Stefán Eiríksson vildi ekki tjá sig
Kjarninn hefur tekið málið upp og telur sig hafa heimildir fyrir því að þeir fjórir sem valið stóð um innan stjórnar væru: Stefán Eiríksson, borgarritari Reykjavíkur og fyrrverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra og fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna, Karl Garðarsson, framkvæmdastjóri útgáfufélags DV og fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri í Skútustaðarhreppi.

Vísir hefur rætt við bæði Kolbrúnu og Þorstein sem segjast ekki hafa fengið tilkynningu frá stjórn um að þau séu næstu útvarpsstjórar, þannig að ekki er um þau að ræða. Þá standa eftir Stefán Eiríksson og Karl Garðarsson. Ekki hefur náðst í Karl en Stefán vildi ekkert tjá sig að svo stöddu um málið og sagði að það yrði bara að koma í ljós.
Upplýstu ekki um umsækjendur
Talsvert hefur verið fjallað um þessa ráðningu en staðan varð óvænt laus þegar Magnús Geir Þórðarson, fráfarandi útvarpsstjóri, ákvað að sækja um stöðu þjóðleikhússtjóra og fékk. Hann hafði þá nýverið skrifað undir endurnýjaðan samning við Ríkisútvarpið ohf.
Stjórn Ríkisútvarpsins ohf. ákvað að halda því leyndu hverjir sóttu um stöðuna en það hefur reynst afar umdeilt. Blaðamaður kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem úrskurðaði að stjórninni væri þetta heimilt, að pukrast með umsækjendur. Samkvæmt heimildum Vísis er sú skoðun uppi innan stjórnar RÚV ofh. að þessi ákvörðun, sem Kári Jónasson formaður stjórnar hefur sagt að væri að ráði Capacent, hefði reynst vel að því leyti til að fram hafi komið umsækjendur sem að öðrum kosti hefðu ekki sótt um.
Vísir beindi þá erindi til Umboðsmanns Alþingis sem ritaði harðort bréf til úrskurðarnefndarinnar og krafði hana um frekari rökstuðning fyrir ákvörðun sinni. Ljóst er að umboðsmaður telur lagatúlkun sem þar er að baki véfengjanlega og er hann nú með það mál til umfjöllunar innan sinna vébanda.
Fréttin var síðast uppfærð 13:45