Fín stemning, ef svo má segja, hefur verið hjá fólkinu sem haldið hefur til í fjöldahjálparstöðinni í Reykjanesbæ í kvöld. Þegar mest var voru um tvö hundruð manns í skjóli þar en einhverjir þeirra eru nú farnir. Hannes Friðriksson, formaður Rauða Kross Íslands á Suðurnesjum, sem stýrt hefur fjöldahjálparstöðinni, segir þó að líklega muni margir af þeim fjögur þúsund sem eru nú í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli koma í fjöldahjálparstöðina í nótt.
Því er verið að flytja fjölda bedda frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og Rauða krossi Íslands til Reykjanesbæjar.
„Þetta gæti orðið miklu meira. Við gætum þurft að fylla íþróttasalinn,“ segir Hannes en fjöldahjálparstöðin er í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Reykjanesbæ. „Þetta er svolítið óljóst enn sem komið er. Þess vegna erum við að fá fleiri bedda, því við viljum vera tilbúin.“
Hannes segir fólk hafa verið að spila körfubolta í íþróttasalnum, drekka kaffi og spjalla. Stemningin hafi verið fín og flugþjónustufyrirtækin hafi verið dugleg við að skaffa matvæli og drykkjarföng.

..