Fjórir erlendir ferðamenn eru nú á gjörgæslu Landspítalans eftir að hafa lent í hörðum árekstri tveggja bíla á Suðurlandsvegi við Háöldukvísl á Skeiðarársandi síðdegis í dag.
Níu ferðamenn frá Frakklandi og Suður-Kóreu voru í bílunum tveimur, jeppa og jeppling. Sjö voru fluttir með þyrlum Landhelgisgæslunnar á slysadeild í Fossvogi. Fljótlega varð ljóst að fjórir væru alvarlega slasaðir, þar af þrjú börn, en hinir talsvert minna. Tveir ferðamannanna voru svo fluttir á spítala í sjúkrabíl.
Eins og áður segir liggja fjórir þeirra sem komu með þyrlunum nú á gjörgæslu. Jón Magnús Kristjánsson yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum segir að hinir þrír séu í rannsóknum og meðferð á bráðamóttöku. Þeir eru minna slasaðir.
Vel gekk að taka á móti ferðamönnunum, að sögn Jóns Magnúsar. Hann kveðst ekki vita hvað fólkið verði lengi á spítalanum en líklega verði það í eftirliti yfir nótt.
„Það skiptir sköpum að við höfum getað opnað þessi sjö viðbótarrými á efri hæð bráðamóttökunnar.“

Hópslysaáætlun var virkjuð þegar tilkynning barst um slysið skömmu fyrir klukkan tvö í dag og Suðurlandsvegi lokað við slysstað. Opnað var fyrir umferð um veginn á ný um kvöldmatarleytið.
Tildrög slyssins eru enn ekki alveg ljós. Grímur Hergerisson settur lögreglustjóri á Suðurlandi sagði þó í samtali við Vísi snemma í kvöld að svo virðist sem annar bíllinn hafi farið yfir á öfugan vegarhelming og lent framan á hinum bílnum, sem kom úr gagnstæðri átt. Börnin sem slösuðust alvarlega í slysinu voru öll í öðrum bílnum.