Vísbendingar er um að eitthvað hafi hreyfst við klakastíflu í Hvítá við Brúnastaði. Skoðun lögreglu hefur leitt í ljós að vatnsborð hefur lækkað töluvert við sumarbústaði á svæðinu.
Í vikunni fékk lögreglan á Suðurlandi tilkynningu um að klakastífla væri í farvegi Hvítár fram af landi Vaðness. Stíflan var sögð loka ós Höskuldslækjar og lagðist vatn úr honum að sumarhúsabyggð á bökkum árinnar norðan megin.
Í tilkynningu frá lögreglunni segir að í kvöld hafi Veðurstofan merkt breytingar á vatnsstöðu í Hvítá við Brúnastaði og gerði hún Almannavörnum viðvart.
Fóru lögreglumenn í eftirlitsferð í Vaðnes og sú skoðun leiddi í ljós að vatnsborðið hefur lækkað töluvert við sumarbústaðina þar.
Aðstæður við ána verða þó ekki skoðaðar frekar fyrr en í björtu á morgun en þessi þróun bendir til þess að eitthvað hafi hreyfst við ísstíflunni í ánni, að því er segir í tilkynningu lögreglu.
Vísbendingar um að hreyfst hafi við klakastíflunni í Hvítá

Tengdar fréttir

Lögreglan fylgist grannt með klakastíflu í Hvítá
Lögreglan á Suðurlandi fylgist grannt með klakastíflu, sem myndaðist í Hvítá í vikunni.