Grínistinn Seth Meyers, sem stýrir þættinum Late Night með Seth Meyers, nefndi Ísland í þætti sínum í gærkvöldi. Þar grínaðist hann með að hér væri kalt og „súper dýrt“. Þegar Meyers var að tala um nýlegt tíst Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, vegna árásar Íran á herstöðvar í Írak þar sem bandarískir hermenn halda til, sagði hann forseta ekki eiga að tjá sig um átök við önnur ríki með þessum hætti.
„Allt er í góðu! Svona ávarpar þú ekki þjóðina um hernaðarátök. Svona skilaboð sendir háskólanemi í ferðalögum erlendis til foreldra sinna,“ sagði Meyers.
Kom þá upp póstkort merkt íslenska fánanum og stílað á Trump fjölskylduna.
„Halló héðan frá Reykjavík! Það er kalt hérna og súper dýrt einhverra hluta vegna! Annars, allt er í góðu!“
Innslag Meyers má sjá hér að neðan. Atriðið hér að ofan hefst eftir rúma mínútu.