Umfjöllun og viðtöl: ÍA - Fylkir 3-2 | Tryggvi hetja Skagamanna Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 15. ágúst 2020 18:44 Tryggvi Hrafn Haraldsson tryggði ÍA sinn fyrsta sigur í fjórum leikjum. vísir/hag ÍA vann dramatískan 3-2 sigur á Fylki á Norðurálsvellinum á Akranesi í Pepsi Max-deild karla í dag. Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði sigurmark Skagamanna úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Sigurinn var sanngjarn. ÍA var ívið betri í fyrri hálfleik og miklu betri í þeim seinni. Fylkir var þó nálægt að fara með eitt stig í Árbæinn en þeir hefðu varla átt það skilið. Fylkir komst yfir skömmu fyrir hálfleik með marki Arnórs Gauta Ragnarssonar. Steinar Þorsteinsson jafnaði á 55. mínútu og þegar stundarfjórðungur var til leiksloka kom Stefán Teitur Þórðarson ÍA yfir. Orri Sveinn Stefánsson skoraði jöfnunarmark Fylkis þegar sex mínútur voru til leiksloka. Orri átti eftir að koma meira við sögu en í uppbótartíma braut hann á Tryggva innan vítateigs. Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dæmdi vítaspyrnu og rak Orra af velli. Tryggvi fór á punktinn og skoraði sigurmark Skagamanna. Þetta var fyrsti sigur þeirra síðan 12. júlí. Þeir eru í 8. sæti deildarinnar með þrettán stig. Fylkismenn eru í 5. sætinu með fimmtán stig. ÍA byrjaði leikinn betur og á 7. mínútu skaut Stefán Teitur í stöngina á marki Fylkis. Skömmu síðar átti Fylkismaðurinn Arnór Borg Guðjohnsen skalla framhjá úr fínu færi. Eftir þetta róaðist leikurinn mikið. Skagamenn héldu boltanum á meðan Fylkismenn lágu til baka og beittu skyndisóknum. Það var einmitt eftir eina slíka sem markið kom á 39. mínútu. Boltinn fór þá af Brynjari Snæ Pálssyni á Valdimar Þór Ingimundarson sem skeiðaði upp hægri kantinn, lék á Hlyn Sævar Jónsson og sendi boltann með hælnum út í teiginn. Hann fór af Sindra Snæ Magnússyni og til Arnórs Gauta sem skoraði með góðu skoti. Í seinni hálfleik voru Skagamenn allsráðandi á meðan Fylkismenn virtust hálf vankaðir. Á 55. mínútu jafnaði Steinar metin. Hann fékk boltann þá frá Brynjari á vinstri kantinum, færði boltann á hægri fótinn og setti hann í stöng og inn. Skagamenn vildu meira og héldu áfram að sækja. Og pressan bar árangur á 75. mínútu. Óttar Bjarni Guðmundsson skallaði þá boltann fyrir mark Fylkismanna á Stefán Teit sem skoraði með skoti af stuttu færi. Eftir markið kom loksins smá líf í Fylki og á 84. mínútu jafnaði Orri Sveinn með skalla eftir fyrirgjöf Djairs Parfitt-Williams. Árbæingar voru svo nálægt því að komast yfir þegar Hákon Ingi Jónsson skaut rétt framhjá á 90. mínútu. Skömmu síðar kom svo atvikið sem réði úrslitum. Tryggvi slapp í gegn, Orri braut á honum og fékk rautt spjald. Eins og venjulega var Tryggvi öryggið uppmálað á vítapunktinum og skoraði af öryggi. Lokatölur 3-2, ÍA í vil. Af hverju vann ÍA? Skagamenn voru betri í þessum leik þótt sigurinn hafi verið naumur. Þeir spiluðu betri fótbolta og héldu sínu striki þrátt fyrir að lenda undir og fá á sig jöfnunarmark gegn gangi leiksins. Skagamenn eru miklu betur spilandi en á síðasta tímabili og hafa tekið stór skref fram á við í þeim þætti leiksins. Fylkismenn voru hættulegir í skyndisóknum í fyrri hálfleik en þeim fækkaði verulega í þeim seinni og þeir ógnuðu ekkert fyrr en undir lokin. Þá höfðu þeir enga stjórn á miðjunni. Hverjir stóðu upp úr? Gísli Laxdal Unnarsson kom inn á sem varamaður í hálfleik og frískaði mikið upp á leik Skagamanna. Steinar skoraði laglegt mark og sýndi fína takta. Brynjar var óheppinn í marki Fylkis en lét það ekki á sig fá og skilaði góðum leik á miðjunni. Stefán Teitur hætti aldrei þótt hlutirnir hafi ekki gengið upp hjá honum framan af og Tryggvi var á endanum hetja ÍA þótt hann hafi oft spilað betur. Hjá Fylki var fátt um fína drætti. Valdimar gerði frábærlega í fyrri marki gestanna en datt algjörlega út úr leiknum í seinni hálfleik. Arnór Gauti hljóp fyrir tvo meðan hans naut við og skoraði gott mark. Hvað gekk illa? Fylkismenn máttu vera ánægðir með stöðuna í hálfleik. Þrátt fyrir að vera miklu minna með boltann vörðust þeir vel og skoruðu eina markið. En þeir voru varla þátttakendur í seinni hálfleiknum, ekki fyrr en á síðustu tíu mínútum hans, og því fór sem fór. Hvað gerist næst? Það er skammt stórra högga á milli hjá Skagamönnum því á þriðjudaginn mæta þeir Valsmönnum í síðasta leik sextán liða úrslita Mjólkurbikarsins. Á laugardaginn sækir ÍA svo KA heim í næsta leik sínum í Pepsi Max-deildinni. Næsti leikur Fylkis er gegn Stjörnunni á Würth-vellinum í Árbænum á föstudaginn. Jóhannes Karl: Gerðum margt ansi vel Strákarnir hans Jóhannesar Karls fengu hrós frá honum eftir leik.vísir/bára Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, var ánægður með frammistöðu sinna manna gegn Fylki og að sjálfsögðu sigurinn. „Mér fannst við spila leikinn þannig að við áttum skilið að vinna hann. Þótt þetta hafi verið dramatískt undir lokin fannst mér við gera ansi margt vel í leiknum. Við vörðumst á köflum vel gegn sprækum framherjum Fylkis. Það er erfitt að eiga við þá, þeir sköpuðu ekki mörg færi en skoruðu samt tvö mörk sem ég er ekki ánægður með,“ sagði Jóhannes Karl eftir leik. „En við skoruðum þrjú mörk, hefðum getað skorað fleiri og ég er virkilega sáttur með það.“ Skagamenn héldu boltanum vel í leiknum í dag og það er áberandi hversu mikið þeir hafa bætt sig á því sviði. „Mér fannst við stjórna leiknum, líka í fyrri hálfleik. Þá hefðum við getað verið aðeins þolinmóðari áður en við leituðum að úrslitasendingunni. Við héldum boltanum mjög vel. Ég veit ekki hvort það sást en völlurinn var erfiður en við reyndum samt að spila fótbolta og gerðum það vel. Mér fannst við sýna yfirburði í leiknum í dag,“ sagði Jóhannes Karl. Eftir að hafa varla verið með lengst af seinni hálfleinum jafnaði Fylkir þegar sex mínútur voru eftir. Og gestirnir fengu eitt ágætis færi eftir það en ÍA náði að knýja fram sigur. „Mér fannst það ekki vera sanngjarnt en þeir gefast aldrei upp og náðu að hnoða inn jöfnunarmarki. En að sama skapi má segja um okkur stráka sem höfðu trú á því sem þeir voru að gera, héldu áfram og náðu verðskuldað í þriðja markið,“ sagði Jóhannes Karl að lokum. Atli Sveinn: Skagamenn voru betri en við í dag Þjálfarar Fylkis, Ólafur Stígsson og Atli Sveinn Þórarinsson.vísir/vilhelm Atli Sveinn Þórarinsson, annar þjálfara Fylkis, viðurkenndi að Árbæingar hefðu verið lakari aðilinn í leiknum á Akranesi. „Í rauninni áttum við ekkert meira skilið. Skagamenn voru betri en við í dag og við erum svekktir með okkur sjálfa,“ sagði Atli Sveinn eftir leik. „Við vorum fínir í fyrri hálfleik og það var jafnræði með liðunum þá en Skagamenn voru betri í seinni hálfleik og við náðum aldrei að klukka þá. Við vorum í basli. Þetta er svekkjandi tap því úr því sem komið var vildum við ná í eitt stig.“ Fylkir jafnaði í 2-2 á 84. mínútu og fékk smá meðbyr eftir það. En það dugði ekki til og ÍA náði stigunum þremur. „Já, en ef við horfum á heildarframmistöðuna og að fá á sig þrjú mörk og gefa töluvert fleiri færi á sér var þetta sanngjarnt. Við viljum gera betur,“ sagði Atli Sveinn sem sagðist ekkert geta tjáð sig um vítaspyrnuna sem réði úrslitum. Hann hafi ekki séð það atvik nógu vel. Þrátt fyrir slakan leik í dag er engan bilbug að finna á Fylkismönnum. „Það er leikur gegn Stjörnumönnum á föstudaginn. Við þurfum að skoða þennan leik og viljum gera betur,“ sagði Atli Sveinn að endingu. Pepsi Max-deild karla ÍA Fylkir
ÍA vann dramatískan 3-2 sigur á Fylki á Norðurálsvellinum á Akranesi í Pepsi Max-deild karla í dag. Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði sigurmark Skagamanna úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Sigurinn var sanngjarn. ÍA var ívið betri í fyrri hálfleik og miklu betri í þeim seinni. Fylkir var þó nálægt að fara með eitt stig í Árbæinn en þeir hefðu varla átt það skilið. Fylkir komst yfir skömmu fyrir hálfleik með marki Arnórs Gauta Ragnarssonar. Steinar Þorsteinsson jafnaði á 55. mínútu og þegar stundarfjórðungur var til leiksloka kom Stefán Teitur Þórðarson ÍA yfir. Orri Sveinn Stefánsson skoraði jöfnunarmark Fylkis þegar sex mínútur voru til leiksloka. Orri átti eftir að koma meira við sögu en í uppbótartíma braut hann á Tryggva innan vítateigs. Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dæmdi vítaspyrnu og rak Orra af velli. Tryggvi fór á punktinn og skoraði sigurmark Skagamanna. Þetta var fyrsti sigur þeirra síðan 12. júlí. Þeir eru í 8. sæti deildarinnar með þrettán stig. Fylkismenn eru í 5. sætinu með fimmtán stig. ÍA byrjaði leikinn betur og á 7. mínútu skaut Stefán Teitur í stöngina á marki Fylkis. Skömmu síðar átti Fylkismaðurinn Arnór Borg Guðjohnsen skalla framhjá úr fínu færi. Eftir þetta róaðist leikurinn mikið. Skagamenn héldu boltanum á meðan Fylkismenn lágu til baka og beittu skyndisóknum. Það var einmitt eftir eina slíka sem markið kom á 39. mínútu. Boltinn fór þá af Brynjari Snæ Pálssyni á Valdimar Þór Ingimundarson sem skeiðaði upp hægri kantinn, lék á Hlyn Sævar Jónsson og sendi boltann með hælnum út í teiginn. Hann fór af Sindra Snæ Magnússyni og til Arnórs Gauta sem skoraði með góðu skoti. Í seinni hálfleik voru Skagamenn allsráðandi á meðan Fylkismenn virtust hálf vankaðir. Á 55. mínútu jafnaði Steinar metin. Hann fékk boltann þá frá Brynjari á vinstri kantinum, færði boltann á hægri fótinn og setti hann í stöng og inn. Skagamenn vildu meira og héldu áfram að sækja. Og pressan bar árangur á 75. mínútu. Óttar Bjarni Guðmundsson skallaði þá boltann fyrir mark Fylkismanna á Stefán Teit sem skoraði með skoti af stuttu færi. Eftir markið kom loksins smá líf í Fylki og á 84. mínútu jafnaði Orri Sveinn með skalla eftir fyrirgjöf Djairs Parfitt-Williams. Árbæingar voru svo nálægt því að komast yfir þegar Hákon Ingi Jónsson skaut rétt framhjá á 90. mínútu. Skömmu síðar kom svo atvikið sem réði úrslitum. Tryggvi slapp í gegn, Orri braut á honum og fékk rautt spjald. Eins og venjulega var Tryggvi öryggið uppmálað á vítapunktinum og skoraði af öryggi. Lokatölur 3-2, ÍA í vil. Af hverju vann ÍA? Skagamenn voru betri í þessum leik þótt sigurinn hafi verið naumur. Þeir spiluðu betri fótbolta og héldu sínu striki þrátt fyrir að lenda undir og fá á sig jöfnunarmark gegn gangi leiksins. Skagamenn eru miklu betur spilandi en á síðasta tímabili og hafa tekið stór skref fram á við í þeim þætti leiksins. Fylkismenn voru hættulegir í skyndisóknum í fyrri hálfleik en þeim fækkaði verulega í þeim seinni og þeir ógnuðu ekkert fyrr en undir lokin. Þá höfðu þeir enga stjórn á miðjunni. Hverjir stóðu upp úr? Gísli Laxdal Unnarsson kom inn á sem varamaður í hálfleik og frískaði mikið upp á leik Skagamanna. Steinar skoraði laglegt mark og sýndi fína takta. Brynjar var óheppinn í marki Fylkis en lét það ekki á sig fá og skilaði góðum leik á miðjunni. Stefán Teitur hætti aldrei þótt hlutirnir hafi ekki gengið upp hjá honum framan af og Tryggvi var á endanum hetja ÍA þótt hann hafi oft spilað betur. Hjá Fylki var fátt um fína drætti. Valdimar gerði frábærlega í fyrri marki gestanna en datt algjörlega út úr leiknum í seinni hálfleik. Arnór Gauti hljóp fyrir tvo meðan hans naut við og skoraði gott mark. Hvað gekk illa? Fylkismenn máttu vera ánægðir með stöðuna í hálfleik. Þrátt fyrir að vera miklu minna með boltann vörðust þeir vel og skoruðu eina markið. En þeir voru varla þátttakendur í seinni hálfleiknum, ekki fyrr en á síðustu tíu mínútum hans, og því fór sem fór. Hvað gerist næst? Það er skammt stórra högga á milli hjá Skagamönnum því á þriðjudaginn mæta þeir Valsmönnum í síðasta leik sextán liða úrslita Mjólkurbikarsins. Á laugardaginn sækir ÍA svo KA heim í næsta leik sínum í Pepsi Max-deildinni. Næsti leikur Fylkis er gegn Stjörnunni á Würth-vellinum í Árbænum á föstudaginn. Jóhannes Karl: Gerðum margt ansi vel Strákarnir hans Jóhannesar Karls fengu hrós frá honum eftir leik.vísir/bára Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, var ánægður með frammistöðu sinna manna gegn Fylki og að sjálfsögðu sigurinn. „Mér fannst við spila leikinn þannig að við áttum skilið að vinna hann. Þótt þetta hafi verið dramatískt undir lokin fannst mér við gera ansi margt vel í leiknum. Við vörðumst á köflum vel gegn sprækum framherjum Fylkis. Það er erfitt að eiga við þá, þeir sköpuðu ekki mörg færi en skoruðu samt tvö mörk sem ég er ekki ánægður með,“ sagði Jóhannes Karl eftir leik. „En við skoruðum þrjú mörk, hefðum getað skorað fleiri og ég er virkilega sáttur með það.“ Skagamenn héldu boltanum vel í leiknum í dag og það er áberandi hversu mikið þeir hafa bætt sig á því sviði. „Mér fannst við stjórna leiknum, líka í fyrri hálfleik. Þá hefðum við getað verið aðeins þolinmóðari áður en við leituðum að úrslitasendingunni. Við héldum boltanum mjög vel. Ég veit ekki hvort það sást en völlurinn var erfiður en við reyndum samt að spila fótbolta og gerðum það vel. Mér fannst við sýna yfirburði í leiknum í dag,“ sagði Jóhannes Karl. Eftir að hafa varla verið með lengst af seinni hálfleinum jafnaði Fylkir þegar sex mínútur voru eftir. Og gestirnir fengu eitt ágætis færi eftir það en ÍA náði að knýja fram sigur. „Mér fannst það ekki vera sanngjarnt en þeir gefast aldrei upp og náðu að hnoða inn jöfnunarmarki. En að sama skapi má segja um okkur stráka sem höfðu trú á því sem þeir voru að gera, héldu áfram og náðu verðskuldað í þriðja markið,“ sagði Jóhannes Karl að lokum. Atli Sveinn: Skagamenn voru betri en við í dag Þjálfarar Fylkis, Ólafur Stígsson og Atli Sveinn Þórarinsson.vísir/vilhelm Atli Sveinn Þórarinsson, annar þjálfara Fylkis, viðurkenndi að Árbæingar hefðu verið lakari aðilinn í leiknum á Akranesi. „Í rauninni áttum við ekkert meira skilið. Skagamenn voru betri en við í dag og við erum svekktir með okkur sjálfa,“ sagði Atli Sveinn eftir leik. „Við vorum fínir í fyrri hálfleik og það var jafnræði með liðunum þá en Skagamenn voru betri í seinni hálfleik og við náðum aldrei að klukka þá. Við vorum í basli. Þetta er svekkjandi tap því úr því sem komið var vildum við ná í eitt stig.“ Fylkir jafnaði í 2-2 á 84. mínútu og fékk smá meðbyr eftir það. En það dugði ekki til og ÍA náði stigunum þremur. „Já, en ef við horfum á heildarframmistöðuna og að fá á sig þrjú mörk og gefa töluvert fleiri færi á sér var þetta sanngjarnt. Við viljum gera betur,“ sagði Atli Sveinn sem sagðist ekkert geta tjáð sig um vítaspyrnuna sem réði úrslitum. Hann hafi ekki séð það atvik nógu vel. Þrátt fyrir slakan leik í dag er engan bilbug að finna á Fylkismönnum. „Það er leikur gegn Stjörnumönnum á föstudaginn. Við þurfum að skoða þennan leik og viljum gera betur,“ sagði Atli Sveinn að endingu.
Uppgjörið: Ísland - Ítalía 71-95 | Afleitur fyrri hálfleikur gerði Íslandi erfitt fyrir Körfubolti
Uppgjörið: Ísland - Ítalía 71-95 | Afleitur fyrri hálfleikur gerði Íslandi erfitt fyrir Körfubolti