Atli Viðar Björnsson segir að Fjölnismenn geti ekkert kvartað yfir rauða spjaldinu sem Ingibergur Kort Sigurðsson fékk í 1-3 tapinu fyrir Valsmönnum á Extra-vellinum í gær.
Valur var 0-2 yfir í hálfleik en Jóhann Árni Gunnarsson minnkaði muninn í 1-2 fyrir Fjölni á 52. mínútu. Sjö mínútum síðar var Ingibergur rekinn af velli.
Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, reyndi tvisvar að brjóta á Ingibergi sem brást illa við og sló Hauk í bringuna. Jóhann Ingi Jónsson gaf Ingibergi rauða spjaldið og þátttöku hans í leiknum var því lokið.
„Haukur gerir tvær tilraunir til að stoppa hann og í sjálfu sér ekkert við því að gera. Það verðskuldar gult spjald. En það sem Ingibergur gerir er algjörlega ófyrirgefanlegt,“ sagði Atli Viðar í Pepsi Max tilþrifunum í gær.
„Þeir voru komnir inn í leikinn og höfðu tækifæri til að stríða Völsurunum og jafna en hann missir hausinn og er réttilega sendur í bað.“
Sigurður Egill Lárusson skoraði svo þriðja mark Vals á 1-3 og gulltryggði sigur gestanna. Með sigrinum fóru Valsmenn á topp Pepsi Max-deildarinnar. Fjölnismenn eru hins vegar á botni hennar.
Í viðtali Vísi eftir leikinn sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, að Ingibergi hefðu orðið á mistök.
„Við erum í erfiðri stöðu í hálfleik, 2-0 undir, en leikurinn er svo aftur að jafnast, við minnkum muninn og erum þokkalega líklegir, þegar það kemur upp atvik þar sem að ítrekað er reynt að þruma okkar leikmann niður. Það tekst að lokum, hann er pirraður á eftir og gerir hlut sem að hann á ekki að gera. En þarna eru tveir leikmenn sem reyna að sparka í hvorn annan, annar fær gult en hinn rautt. Það þarf auðvitað að skilgreina reglurnar með það,“ sagði Ásmundur.
„Ingibergur átti auðvitað ekki að gera þetta. Það er klárt og hann veit það sjálfur.“
Næsti leikur Fjölnis er gegn KR á Meistaravöllum í sextán liða úrslitum Mjólkurbikarsins á fimmtudaginn. Næsti deildarleikur Grafarvogspilta er á móti ÍA á miðvikudaginn í næstu viku.