Erlent

Trump mildar dóm yfir fyrrum ráðgjafa sínum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Roger Stone er 67 ára.
Roger Stone er 67 ára. Win McNamee/Getty

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur mildað fangelsisdóm sem Roger Stone, vinur forsetans og fyrrum ráðgjafi, hlaut fyrir að ljúga að Bandaríkjaþingi, að hindra framgang réttvísinnar og að reyna að hafa áhrif á vitnisburð annarra. Stone átti að hefja afplánun í alríkisfangelsi í Georgíuríki næstkomandi þriðjudag. Stone hafði verið dæmdur í þriggja ára og fjögurra mánaða fangelsi.

Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu segir að Stone sé fórnarlamb „Rússa-ruglsins (e. Russia Hoax) sem vinstrimenn og bandamenn þeirra í fjölmiðlum hafi haldið á lofti í áraraðir til þess að grafa undan forsetanum.“

Í tilkynningu frá Hvíta húsinu er því haldið fram að Stone hafi aðeins verið handtekinn vegna pirrings saksóknara yfir því að geta ekki sannað tengsl Trump við Rússa.AP/Alex Brandon

Þá segir að saksóknarar dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, undir forystu sérstaka saksóknarans Roberts Mueller hafi ákært Stone vegna þess hve pirraðir þeir voru að geta ekki sannað að framboð Trump hafi fengið aðstoð frá Rússum við að komast á forsetastól. Stone er þó sjötti starfsmaður Trump eða framboðs hans sem hefur verið dæmdur vegna einhvers sem í ljós hefur komið við Rússarannsóknina svokölluðu.

Þá er einnig gefið í skyn, í tilkynningu Hvíta hússins, að Alríkislögregla Bandaríkjanna (FBI) hafi veitt CNN-fréttastofunni fyrir fram upplýsingar um áhlaup sem hún gerði á heimili Stone, þar sem tökulið frá fréttastofunni var viðstatt handtöku hans.

Trump forseti hafði sjálfur gefið í skyn að hann myndi milda dóminn yfir Stone, sem nú þarf ekki að sitja neitt inni. Það gerði Trump síðast á fimmtudaginn, í viðtali við Fox News.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×